Er Ben Needham látinn?

Ben Needham áður en hann hvarf.
Ben Needham áður en hann hvarf. Skjáskot af Sky

Breskir rannsóknarlögreglumenn hafa upplýst móður Ben Needham um að sonur hennar kunni að vera látinn. Samkvæmt nýjustu tilgátunni um örlög Ben var hann kraminn til bana af skurðgröfu.

Ben hvarf á grísku eyjunni Kos fyrir 25 árum, aðeins 21 mánaða gamall. Nú hefur maður gefið sig fram sem segist vinir skurðgröfustjóra sem varð Ben að bana fyrir slysni.

Skurðgröfustjórinn, Konstantinos Barkas, kallaður Dino, lést úr magakrabbameini í fyrra, örfáum mánuðum áður en lögreglan í Suður-Yorkshire opnaði aftur rannsókn sína á Kos.

Þegar Ben hvarf vann Barkas við uppgröft á tveimur stöðum sem nú verður leitað á.

Móðir piltsins, Kerry Needham hefur borið þá von í brjósti að sjá son sinn á ný og sagði sinn versta ótta hafa ræst þegar rannsóknarlögreglumennirnir heimsóttu hana á dögunum.

„Það sem þeir sögðu mér var það síðasta sem þeir vildu segja mér. Þeir halda að Ben sé mögulega dáinn og grafinn,“ sagði hún í samtali við Daily Mirror. „Þeir eru ekki lengur að leita að manneskju sem er saknað. Hvernig á ég að takast á við það? Móðureðlið sagði mér alltaf að hann væri á lífi.“

Ben hvarf fyrir utan heimili ömmu sinnar og afa á Kos 24. júlí 1991. Svo virðist sem Barkas hafi verið við vinnu á svæðinu, að rýma land fyrir byggingaverktaka.

Lögreglan í Suður-Yorkshire mun ferðast til Kos á næstu vikum til að fylgja eftir vísbendingum sem borist hafa eftir að auglýst var eftir upplýsingum í maí sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert