Hópur fjögurra Mið-Evrópulanda sem kallast „the Visegrad Four“er tilbúinn að beita neitunarvaldi gegn hvers konar samningi Evrópusambandsins við Bretland sem takmarkar fólksflutninga að sögn forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico. Þessu er greint frá á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Hópinn skipa Slóvakía, Tékkland, Ungverjaland og Pólland. Fico sagði í viðtali við fréttastofuna Reuters að löndin fjögur yrðu ósveigjanleg í viðræðum við Breta sem stefna að úrsögn úr Evrópusambandinu.
„Ef það verður engin trygging fyrir jafnræði meðal fólks munum við neita öllum samningum milli ESB og Bretlands,“ sagði Fico.
Hann lagði áherslu á að hann og aðrir leiðtogar Mið-Evrópuþjóða myndu ekki leyfa fólkinu sínu að verða „annars flokks“ borgarar í Bretlandi en stór hluti fólksflutninga til Bretlands kemur frá Mið- og Austur-Evrópu.
Tékkneski sendiherrann í Bretlandi hefur tekið fram að fullyrðingar Ficos endurspegli ekki endilega opinbera stefnu Visegrad-hópsins í Brexit-málinu. Hann sagði í samtali við BBC að hann bæri virðingu fyrir skoðunum Ficos en það væri hlutverk Póllands, sem hefur forsætið, að tala fyrir hönd hópsins.