Staðfest að vænghlutinn er úr MH370

Vænghlutarnir seum fundust á Maritíus. Nú hefur verið staðfest að …
Vænghlutarnir seum fundust á Maritíus. Nú hefur verið staðfest að þeir hafi komið úr farþegaþotunni MH370. AFP

Staðfest hefur verið að hluti úr flugvélavæng sem fannst á eyjunni Máritíus er úr farþegaþotu Malaysia Airlines MH370, sem hvarf á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking í mars 2014, með 239 farþega innanborðs.

Þetta staðfestu áströlsk yfirvöld í dag, en vara jafnframt við óþarfa bjartsýni því fundurinn varpi engu nýju ljósi á staðsetningu vélarinnar.

Frétt mbl.is: Ekki hægt að tengja við MH370

Þrátt fyrir ítarlega leit neðansjávar í suðurhluta Indlandshafs, þar sem rannsakendur telja að flugvélin hafi steypst í hafið, hefur enn fundist hvorki tangur né tetur af henni.

„Borin voru kennsl á vörunúmer í  hluta braksins,“ segir í skýrslu áströlsku samgönguslysanefndarinnar (ATSB). Um hafi verið að ræða raðnúmer eignað hlut sem framleiðandi vængsins hafi staðfest að samsvari MH370.

Darren Chester, samgöngumálaráðherra Ástralíu, sagði rannsakendur vera vongóða um að þeim takist að finna vélina. „Fundur þessa braks...staðfestir að leitaráherslur eiga enn að vera á suðurhluta Indlandshafs,“ sagði í yfirlýsingu frá Chester. „Brakið veitir þó engar upplýsingar sem hægt er að nýta til að ákvarða nákvæma staðsetningu flugvélarinnar.“

Stutt er síðan ATSB greindi frá því að ekki væri enn búið að tengja brak sem bandaríkjamaðurinn Blaine Gibson fann við Madagaskar við MH370, eða yfirhöfuð þotu af gerðinni Boeing 777.

Nokkrir hlutar af flugvélabraki, sem talið er að séu úr MH370 hafa fundist meðfram ströndum vestur Indlandshafs, m.a. í Mósambík, Suður-Afríku og Máritíus. Brak flugvélavængsins er hins vegar einungis þriðji hlutinn sem staðfest hefur verið að hafi komið úr flugvélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert