Vilja að May taki ákvörðunina

Theresa May, forsætisráðherra Breta.
Theresa May, forsætisráðherra Breta. AFP

Meirihluti Breta vill að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, en ekki breska þingið taki ákvörðun um það að virkja grein 50 í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins og hefja þar með formlega úrsögn landsins úr sambandinu.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov. Samkvæmt henni telja 54% að May eigi að taka ákvörðunina en 30% að breska þingið eigi að gera það. Sé horft til þess hvort fólk studdi úrsögn úr Evrópusambandinu eða ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í Bretlandi í sumar um málið telja 87% þeirra sem kusu með úrsögn að May taki ákvörðunina en 57% þeirra sem vildu vera áfram í sambandinu að þingið geri það.

Talsverðar deilur hafa staðið um það í Bretlandi eftir þjóðaratkvæðið, þar sem meirihlutinn kaus með því að yfirgefa Evrópusambandið, hvort Theresa May og ríkisstjórn hennar eigi að taka ákvörðunina eða breska þingið þar sem meirihluti þingmanna er hlynntur áframhaldandi veru í sambandinu. Dómsmál eru meðal annars í gangi í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert