Vopnahlé framlengt í sólarhring

Uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo lesa dreifibréf frá Sýrlandsstjórn sem hvetur …
Uppreisnarmenn í austurhluta Aleppo lesa dreifibréf frá Sýrlandsstjórn sem hvetur íbúa til að nýta sér vopnahléð til að yfirgefa borgina. AFP

Varnarmálaráðherra Rússlands tilkynnti nú síðdegis að Rússar muni framlengja hlé sem gert var á átökum í sýrlensku borginni Aleppo upp í sólarhring, en áður hafði hafði verið boðað að vopnahléið myndi standa í 11 stundir.

Ákvörðunin að framlengja vopnahléið af „mannúðarástæðum“ var tekin af Vladimír Pútin Rússlandsforseta að því er sagði í tilkynningu frá Sergei Shoigu varnarmálaráðherra. Hann tilgreindi þó ekki hvenær vopnahléinu muni ljúka, en Sameinuðu þjóðirnar höfðu áður sagt að rússnesk stjórnvöld hafi lofað að vopnahléið standi fram á laugardag.

Stjórnvöld í Rússlandi mæta nú síaukinni gagnrýni fyrir þátttöku sína í grimmilegum árásum sýrlenska stjórnarhersins á Aleppo. Sem svar við þeirri gagnrýni tilkynntu rússnesk stjórnvöld nú fyrr í vikunni að látið verði af árásum á Aleppo tímabundið svo uppreisnarmönnum og íbúum, í þeim hluta borgarinnar þar sem umsátursástand hefur ríkt undanfarin misseri, verði gert kleift að yfirgefa borgina.

Eftir viðræður við stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi í dag um málefni Sýrlands tilkynnti Pútín að Rússar myndu fresta frekari árásum á Aleppo „jafn lengi og hægt væri“.

Sameinuðu þjóðirnar hafa áður greint frá því að vonast sé til að hægt verði að flytja fyrsta hóp særða á brott úr borginni á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka