Breska ríkisstjórnin átti að leita heimildar breska þingsins áður en hún hóf formlega úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu. Þetta er niðurstaða bresks dómstóls sem kynnti niðurstöðu sína í morgun.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst hefja úrsagnarferlið í mars á næsta ári. Hún telur ríkisstjórn sína hafa konunglegt vald til þess að taka ákvörðun um að hefja ferlið, en um er að ræða hluta af framkvæmdavaldinu. Talið er að ríkisstjórnin muni áfrýja niðurstöðu hæstaréttar til æðra dómstigs (Court of Appeal).
Þingið verður að greiða atkvæði um hvort Bretland geti hafið úrsagnarferlið, segir í úrskurði hæstaréttar sem var kveðinn upp í morgun. Það þýðir að ríkisstjórnin getur ekki virkjað 50. grein Lissabonsáttmálans, sem myndi hrinda af stað tveggja ára samningaviðræðum um útgöngu Breta, án samþykkis þingsins.