Er Brexit búið að vera?

AFP

Ríkisstjórn Bretlands varð fyrir áfalli í dag þegar Hæstiréttur Englands og Wales úrskurðaði að stjórnvöldum bæri að leita samþykkist breska þingsins áður en úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu verður formlega hafið á næsta ári. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafði áður lýst því yfir að ekki væri nauðsynlegt að leita samþykkis þingsins. Ríkisstjórnin gæti í krafti konunglegs valds hafið úrsagnarferlið úr sambandinu án þess.

May hefur þegar fyrirskipað lögfræðingum ríkisstjórnarinnar að áfrýja úrskurðinum til Hæstaréttar Bretlands og er búist við að niðurstaða þar gæti lengið fyrir í desember. May hafði áður lýst því yfir að til stæði að hefja formlegt úrsagnarferli landsins úr Evrópusambandinu í mars með því að virkja 50. grein Lissabon-sáttmála sambandsins. Komist Hæstiréttur Bretlands að annarri niðurstöðu er málið aftur á sama stað. En hvað ef svo verður ekki?

Verður boðað til þingkosninga á næsta ári?

Fram kemur í breskum fjölmiðlum að úrskurðurinn í dag hafi aukið líkurnar á því að boðað verði til þingkosninga í Bretlandi á næsta ári. Þess þarf ekki fyrr en 2020 þegar kjörtímabilinu lýkur en þar í landi er það fimm ár. May hefur lýst því yfir áður að ekki standi til að boða til nýrra kosninga. Samherjar hennar margir hafa hvatt hana til þess í ljósi sterkrar stöðu Íhaldsflokks hennar í skoðanakönnunum og vandræðagangs innan Verkamannaflokksins.

Kosningar þýddu að May gæti fengið umboð frá breskum kjósendum í bindandi kosningu til þess að framfylgja þeirri stefnu sinni að taka Bretland út úr Evrópusambandinu en þjóðaratkvæðið síðasta sumar þar sem meirihlutinn vildi úr sambandinu var aðeins ráðgefandi. Tekist hefur verið á um það hvort stjórnvöldum væri fyrir vikið skylt að framfylgja niðurstöðum þess sem og breska þinginu. Hafa ýmsir þingmenn viljað hafa niðurstöðuna að engu.

Hins vegar hefur verið bent á að 544 af 650 þingmönnum á breska þinginu hafi samþykkt að setja málið í þjóðaratkvæði á síðasta ári. Enginn fyrirvari hafi verið settur í þeim efnum um niðurstöðuna. Aðeins þingmenn Skoska þjóðarflokksins lögðust gegn lagafrumvarpi þess efnis. Ennfremur hefur verið bent á að ríkisstjórn Davids Cameron, forvera May, hafi ítrekað heitið því að virða niðurstöðuna og framfylgja henni. Ákvörðunin væri breskra kjósenda.

Verkamannaflokkurinn virðir þjóðaratkvæðið

Miðað við viðbrögð þeirra sem gagnrýnt hafi áform bresku ríkisstjórnarinnar, og þá einkum þá ákvörðun að leita ekki eftir samþykki þingsins, við úrskurðinum í dag er ólíklegt að niðurstaða þjóðaratkvæðisins verði höfð að engu. Þannig sagði Pat McFadden, þingmaður Verkamannaflokksins, í dag að ríkisstjórnin hefði umboð til að taka Bretland úr Evrópusambandinu en ekki til þess að gera það þannig að skaði hlytist af.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ummæli McFaddens eru athyglisverð í ljósi þess að hann er einn af forvígismönnum samtakanna Open Britain sem tóku við af samtökunum Britain Stronger In Europe sem börðust gegn því að Bretland segði skilið við Evrópusambandið. Fleiri sem eru framarlega í þeim hópi hafa talað á sömu nótum í dag. Angela Smith, leiðtogi Verkamannaflokksins í lávarðadeildinni sagði í dag að flokkurinn ætlaði ekki hindra útgöngu landsins.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, talaði á sömu nótum í dag. Flokkurinn virti niðurstöðu þjóðaratkvæðisins en ríkisstjórnin yrði að hafa eðlilegt samráð við breska þingið varðandi það hvernig  haldið yrði á viðræðunum við Evrópusambandið um úrsögnina. Verkamannaflokkurinn myndi þrýsta á um að farin yrði leið í þeim efnum sem tryggði hagsmuni verkafólks, afkomu þess sem og hagsmuni bresks efnahagslífs.

Snýst um það með hvaða hætti Brexit fer fram

Sama sjónarmið hefur heyrst úr röðum þeirra sem hafa beitt sér gegn áformum ríkisstjórnarinnar innan Íhaldsflokksins. Nick Herbert, þingmaður flokksins, hefur hvatt til þess að málið verði tekið fyrir í þinginu áður en það fer fyrir Hæstarétt Bretlands í ljósi þess að meirihluti þingmanna myndi styðja það að úrsagnarferlið yrði hafið formlega. Herbert barðist fyrir því fyrir þjóðaratkvæðið að Bretland yrði áfram innan Evrópusambandsins.

Skoðanakannanir gefa ekki tilefni til þess að ætla að breskir kjósendur hafi skipt um skoðun á málinu síðan þjóðaratkvæðið fór fram. Ólíklegt er talið að þingmenn fari gegn vilja meirihluta kjósenda í kjördæmum þeirra. Þá hefur umræðan frá þjóðaratkvæðinu aðallega snúist um það hvort slíta eigi öll tengsl við Evrópusambandið eða vera áfram í nánum tengslum við sambandið á ákveðnum sviðum. Til að mynda aðilar að innri markaði þess.

Fyrir vikið er talið ólíklegt að úrskurðurinn í dag komi í veg fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu þó málið gæti seinkað því að grein 50 verði virkjuð. Verði hann staðfestur gæti hann hins vegar leitt til þess að tengsl Bretlands við sambandið verði meiri eftir úrsögnina en margir stuðningsmaður hennar hafa viljað sjá. Þannig snýst umræðan ekki um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu heldur framkvæmd úrsagnarinnar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert