Dómararnir sagðir „óvinir þjóðarinnar“

Forsíða götublaðsins Daily Mail í dag. Þar eru dómararnir þrír …
Forsíða götublaðsins Daily Mail í dag. Þar eru dómararnir þrír sakaðir um að vera óvinir bresku þjóðarinnar.

Synd væri að segja að bresku götublöðin hafi brugðist af yfirvegun við dómi hæstaréttar landsins um að leggja þurfi útgöngu Breta úr ESB fyrir þingið í gær. Dómararnir þrír voru meðal annars úthrópaðir sem „óvinir þjóðarinnar“ á forsíðum blaðanna. Eitt þeirra vakti sérstaka athygli á að einn dómaranna væri samkynhneigður.

Dómsins hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu, en dómararnir þrír komust að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Íhaldsflokksins gæti ekki hafið útgönguferlið úr Evrópusambandinu án þess að leggja það fyrir breska þingið áður, en sú hefur verið krafa andstæðinga Brexit.

Viðbrögð götublaðanna, sem hafa verið dyggir málsvarar þess að Bretar gangi úr Evrópusambandinu, létu ekki á sér standa í kjölfar dómsuppkvaðningarinnar, en þau réðust með offorsi á dómarana þrjá.

„Óvinir þjóðarinnar,“ básúnaði Daily Mail á forsíðu sinni í dag undir myndum af dómurunum. „Reiði yfir dómurum sem eru úr tengslum sem buðu 17,4 milljónum kjósenda Brexit birginn og gætu komið af stað stjórnskipunarlegu uppnámi,“ segir þar í yfirfyrirsögn.

Frétt sem Daily Mail birti um dómarana sætti töluverðri gagnrýni í gær. Þar var einn þeirra sagður hafa stofnað „EVRÓPSKAN“ hóp lögmanna, annar hefði rukkað skattgreiðendur um milljónir punda fyrir ráðgjöf og sá þriðji væri fyrrverandi ólympískur skylmingamaður sem væri opinberlega samkynhneigður.

Rithöfundurinn J.K. Rowling, sem skóp bækurnar um galdrastrákinn Harry Potter, var ein þeirra sem vöktu athygli á því að Daily Mail hefði gert kynhneigð dómara að umfjöllunarefni á Twitter.

„Við verðum að komast úr ESB“

Daily Telegraph birtir einnig myndir af dómurunum á forsíðu sinni undir fyrirsögninni „Dómararnir gegn þjóðinni“. Á henni er einnig grein frá Nigel Farage, formanni Breska sjálfstæðisflokksins (UKIP), undir fyrirsögninni „Kjósendur munu ekki láta þennan ótrúlega hroka afskiptalausan“.

Afstaða Daily Express er sömuleiðis afdráttarlaus. Á forsíðu blaðsins segir að þrír dómarar hafi stöðvað Brexit. Nú þurfi landið virkilega á lesendum blaðsins að halda. „Við verðum að komust úr ESB,“ segir í stríðsfyrirsögn á forsíðunni.

Þá sakar götublaðið The Sun, sem er í eigu auðkýfingsins Ruperts Murdoch, „forríka erlenda elítu um að ganga gegn vilja breskra kjósenda“. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert