Mörg hundruð fyrrverandi hermenn hafa gengið til liðs við aðgerðasinna í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum til að berjast gegn framkvæmdum við fyrirhugaða olíuleiðslu. Yfirvöld hafa skipað fólkinu að yfirgefa svæðið fyrir mánudag. Óljóst er hvort það muni verða við því.
Olíuleiðslan, sem fer fram hjá verndarsvæði Standing Rock-ættbálksins, er nánast tilbúin fyrir utan hluta sem á að fara undir á á svæðinu, að því er segir í frétt á vef BBC.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir stuðningi við framkvæmdina, sem er metin á marga milljarða dala. Trump á hlut í orkufyrirtækinu Energy Transfer Partners, sem er staðsett í Texas, sem stýrir framkvæmdinni auk Phillips 66 sem á fjórðung í leiðslunni.
Talsmaður Trumps segir að afstaða nýkjörins forseta gagnvart framkvæmdinni tengist ekki fjárfestingunni. Þetta snúist um stefnumál. Talsmaðurinn telur enn fremur að Trump sé þegar búinn að selja hluti sína í Energy Transfer Partners.
Mótmæli frumbyggja á svæðinu hófust í apríl á þessu ári. Aðgerðasinnar halda því fram að leiðslan muni verða lögð yfir helgan grafreit frumbyggja og muni enn fremur menga vatnslindir Standing Rock-ættbálksins.
Umhverfisverndarsinnar og fyrrverandi hermenn hafa nú bæst í hópinn. Michael Woord jr. fer fyrir hópi hermannanna fyrrverandi, en hann er fyrrverandi landgönguliði og lögreglumaður í Baltimore.
Lögreglumenn á svæðinu hafa verið sakaðir um að beita mótmælendur harðræði.
Wood segir í myndskeiði að hermennirnir, sem hafi þjónað landi og þjóð dyggilega, séu komnir til að mótmæla með friðsömum hætti. Lögeglan verði að gera það upp við sig hvort hún vilji beita þennan hóp ofbeldi, en ljóst sé að heimurinn verði að vita af því hvað sé að gerast í Bandaríkjunum.