Svartsýnar spár Englandsbanka um efnahagsleg áhrif þess að breskir kjósendur samþykktu að segja skilið við Evrópusambandið voru ekki á rökum reistar. Þetta viðurkenndi aðalhagfræðingur bankans, Andy Haldane, á fundi á vegum bresku hugveitunnar Institute for Government í London, höfuðborg Bretlands, á fimmtudaginn.
Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph en þar segir að Haldane hafi viðurkennt rangar spár Englandsbanka á sama tíma og nýjar hagtölur sýndu að mestur vöxtur hafi verið í bresku efnahagslífi á síðasta ári af þeim ríkjum heimsins sem standa best að vígi efnahagslega þvert á svartsýnar hagspár.
Þannig sýna nýjar tölur að vöxtur í þjónustuviðskiptum hafi ekki verið meiri undanfarna 17 mánuði og methækkun á vísitölu hlutabréfa í stærstu bresku fyrirtækjunum í sjötta sinn í röð á fimmtudaginn sem er mesta samfellda hækkun hennar undanfarna tvo áratugi.
Haldane sagði þá gagnrýni sem sett hefði verið fram á hagfræðinga á undanförnum árum eiga rétt á sér í ljósi þess að þeim hefði mistekist að spá fyrir um alþjóðlegu fjármálakrísuna og haft rangt fyrir sér um efnahagslegar afleiðingar þess að Bretar kysu að yfirgefa Evrópusambandið.