Segir hlutverk ríkisins að leiðrétta óréttlætið

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. /AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur lofað að kynna til sögunnar umfangsmiklar samfélagsumbætur til að leiðrétta það sem hún kallar „brennandi óréttlæti“ í nútímasamfélagi. Í grein sem birtist í Telegraph segir May að Bretar hafi kosið að ganga úr Evrópusambandinu til að hafa áhrif á hvernig hlutirnir virka í landinu og að hún vilji „samfélag fyrir alla“.

Athugasemdir forsætisráðherrans koma fram í aðdraganda ræðu sem hún flytur á morgun um breytingar í þágu samfélagslegra umbóta í Bretlandi. Þegar May tók við embætti síðasta sumar í framhaldi af Brexit kvaðst hún myndu þjóna í þágu „einnar þjóðar“ en ekki aðeins í þágu þeirra fáu sem njóti forréttinda.

Ögrar hugmyndum forvera sinna

Í greininni í Telegraph skrifar May að ríkið eigi ekki að „víkja úr vegi“ og leggur áherslu á að það sé „meira við þetta líf en einstaklingshyggja og sérhagsmunir“.

Ögrar hún þannig hugmyndum forvera sinna í Íhaldsflokknum en til að mynda hafnar hún hugmyndum Davids Cameron um „stórt samfélag“ og staðhæfingum Margaretar Thatcher um að það sé „ekkert til sem kallast samfélag“.

Segir hún ríkisstjórn landsins skylt að beita sér, meðal annars á mörkuðum þar sem neytendum bjóðast ekki nægilega góð kjör. „Í hjarta mér trúi ég að það sé meira við þetta líf en einstaklingshyggja og sérhagsmunir,“ skrifar May meðal annars.

Skrif May víkja frá rótgrónum hugmyndum innan Íhaldsflokksins um að besta leiðin til að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi sé með því að skila hagvexti sem byggir á frjálsri markaðsstefnu. Greinin ber einnig vott um staðfestu May um að endurskilgreina Íhaldsflokkinn sem flokk hinna vinnandi stétta og takmarka þannig vægi Verkamannaflokksins.

Vill leiðrétta „óréttlætið og ósanngirnina“

„Samfélags- og menningarleg eining, sem er fyrir tilstilli fjölskyldna, samfélaga, bæja, borga, héraða og þjóða er það sem skilgreinir okkur og gerir okkur sterk,“ skrifar May. „Og það er hlutverk ríkisins að hvetja og hlúa að þessum samböndum og stofnunum þar sem það getur og til að leiðrétta óréttlætið og ósanngirnina sem sundrar okkur, hvar sem það er að finna.“

Af greininni að dæma er May ákveðin í því að forysta hennar muni ekki einkennast eingöngu af Brexit og sér hún fyrir sér að samfélagslegar umbætur, sem kynntar verði til sögunnar á komandi vikum, verði eitt hennar mikilvægasta verkefni í embætti.

Yfirlýsingar um að ráðast gegn „fyrirlitlegum fordómum“ gegn þeim sem glíma við geðræn vandamál verða meðal annars kynntar á morgun auk nýrrar stefnu í iðnaði og fyrirætlana um aukna uppbyggingu. Segir May að niðurstaða Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem varð til þess að hún tók við starfi forsætisráðherra, gefi það sterklega til kynna að Bretar vilji róttækar breytingar í landinu. 

„Þegar Bretar greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í júní kusu þeir ekki eingöngu að yfirgefa Evrópusambandið; þeir kusu breytingar á því hvernig hlutirnir virka í landinu okkar,“ skrifar May.

Svarar fyrir gagnrýni

Hingað til hefur lítið verið vitað um sýn May á efnahagsmál þar sem hún varð forsætisráðherra án þess að heyja hefðbundna kosningabaráttu um forystusætið né heldur hefur hún leitt stjórnarandstöðu líkt og forverar hennar.

Forysta May olli nokkrum áhyggjum meðal íhaldsmanna þegar hún lýsti því yfir á ráðstefnu innan flokksins að hún væri fylgjandi ríkisafskiptum á fallandi mörkuðum. Í greininni svarar hún fyrir þessa gagnrýni með því að rökstyðja af hverju ríkið verði að grípa inn í þegar aðstæður á markaði komi niður á neytendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert