Nálgun Breta „ekki vitund ruglingsleg“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þvertekur fyrir að nálgun ríkisstjórnar hennar á útgöngu úr Evrópusambandinu sé ruglingsleg. Þá segist hún munu hafa stjórn Bretlands á eigin landamærum í forgangi, umfram aðgang landsins að sameiginlegum markaði sambandsins.

Í sínu fyrsta sjónvarpsviðtali á nýju ári, á sjónvarpsstöðinni Sky í dag, sagði May að bresk yfirvöld myndu geta tryggt stjórn sína á innflytjendamálum eftir að landið hefur sagt skilið við ESB. Þá væri hægt að semja um „besta mögulega viðskiptasamninginn“ við önnur ríki Evrópu.

„Stundum talar fólk eins og það telji að við ætlum einhvern veginn út úr ESB en viljum samt halda áfram einhvers konar minni aðild. Við erum að fara burt. Við erum að koma út. Við ætlum ekki að vera aðilar að ESB lengur,“ sagði May.

Í síðustu viku sagði sendiherra Bretlands hjá ESB, Sir Ivan Rogers, sig frá embættinu. Hvatti hann um leið annað starfslið Breta í Brussel til að sýna sjálfstæði sitt og gagnrýna „veik rök og ruglingslegan þankagang stjórnvalda.“

Frétt mbl.is: Sendiherra Breta hjá ESB hættur

Stytta af Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, fyrir utan þinghúsið …
Stytta af Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, fyrir utan þinghúsið í London. AFP

Valið ekki svo einfalt

May hafnaði lýsingu Rogers á stjórn sinni í viðtalinu.

„Nálgun okkar í þessum málum er ekki vitund ruglingsleg,“ sagði May. „Jú, við höfum tekið okkar tíma í þetta [...] Það var mikilvægt fyrir okkur að taka góðan tíma og horfa á helstu vandamálin.“

Leiðtogar ESB hafa ítrekað fullyrt að Bretland geti ekki áfram átt fulla aðild að sameiginlegum markaði sambandsins, án þess að samþykkja frjálsar ferðir fólks á milli landa.

May var endurtekið spurð í viðtalinu hvort hún væri reiðubúin að fórna aðgengi að markaðnum fyrir stjórn yfir landamærunum. Sagði hún valið ekki vera svo einfalt.

„Spurningin er frekar, hvernig er rétta sambandið fyrir Bretland til að hafa við Evrópusambandið þegar við stöndum fyrir utan? Við munum hafa stjórn yfir landamærum okkar og við munum hafa stjórn yfir lögum okkar.“

Umfjöllun The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert