Vill semja hratt við Breta um viðskipti

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, segist í viðtali við breska dagblaðið The Times í dag reiðubúinn að semja hratt en um leið á vandaðan hátt um viðskipti við Bretland samhliða fyrirhugaðri útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Haft er eftir Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, í frétt AFP í dag að ummæli Trumps væru jákvæðar fréttir fyrir Breta. „Ég tel að það séu góðar fréttir að Bandaríkin vilji semja um hagstæðan fríverslunarsamning við okkur og gera það mjög hratt.“

Rifjað er upp í fréttinni að fráfarandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama, hafi sagt fyrir þjóðaratkvæðið í Bretlandi í sumar, þar sem samþykkt var að yfirgefa Evrópusambandið, að yrði niðurstaðan að segja skilið við sambandið færu Bretar aftast í röðina þegar kæmi að fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Jafnvel er talið að þegar sé unnið að útlínum fríverslunarsamnings á milli Bretlands og Bandaríkjanna í herbúðum Trumps sem vilji sé fyrir að samið verði um áður en Bretar segi formlega skilið við Evrópusambandið eins og fram kemur á vef breska tímaritsins Spectator.

Bresk stjórnvöld geta þó ekki undirritað slíkan samning formlega fyrr en þau hafa yfirgefið sambandið.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í dag.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, ræðir við fjölmiðla í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert