„Við þurfum í raun að komast framhjá tilfinningunum sem hafa verið áberandi í umræðunni og benda fólki á staðreyndir málsins. Bretar hafa átt í góðu samstarfi við ríki innan Evrópusambandsins um árabil. Það er engum í hag ef samskiptin verða allt í einu á einhverjum allt öðrum grundvelli,“ segir Michael Nevin, sendiherra Bretlands, í samtali við mbl.is í tilefni af ræðu Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, í dag þar sem hún fjallaði um áherslur ríkisstjórnar sinnar vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
„Rétt eins og til að mynda Noregur og Ísland eiga í nánu samstarfi við Evrópusambandið munum við líka gera það. Ekki á nákvæmlega sömu forsendum en engu að síður nánu samstarfi og vináttu,“ segir Nevin ennfremur. May hefði sagt í ræðu sinni að hún ætti ekki von á öðru en að það tækist að semja við sambandið á vinsamlegum nótum.
„En hún væri hins vegar meðvituð um þá umræðu að refsa bæri Bretlandi og velti því upp hvort slíkt væri skynsamlegt í þroskuðu samstarfi. Með hagsmuni allra í huga tel ég rétt að draga úr tilfinningunum og hugsa frekar um það með hvaða hætti þetta nýja samstarf eigi eftir að verða. Rétt eins og í tilfelli annarra. Evrópusambandið samdi við Kanada. Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að gera jafnvel betur í tilfelli Bretlands?“
Hafa beri í huga að sameiginlegir hagsmunir Bretlands og Evrópusambandsins felist í því að ná góðri lendingu í viðræðum um tengslin þar á milli í framtíðinni. „Það ætti ekki að vera það erfitt. Við hefjum viðræðurnar við þær aðstæður að sameiginlegur skilningur, sömu reglur og svo framvegis hafa verið fyrir hendi um árabil. Evrópusambandið hefur snúist um að efla viðskipti og sterk tengsl. Þannig að ef tilfinningarnar eru settar til hliðar ætti þetta ekki að vera svo erfitt.“
Sendiherrann segist fyrir vikið telja að flest bendi til þess að hægt verði að nálgast málið á raunsæjan og ábyrgan hátt. „Það kann að ganga á ýmsu á leiðinni á þann stað en að lokum ætti rökrétt og efnahagsleg hugsun að verða ofan á.“ Spurður hvað verði ef Evrópusambandið verði ekki reiðubúið að bjóða samning sem Bretar geti sætt við við segir hann: „Forsætisráðherrann hefur verið afdráttarlaus í þeim efnum. Við munum ekki samþykkja slæman samning. En hún sagðist heldur ekki sjá hvers vegna niðurstaðan ætti að verða með þeim hætti.“