Bresk stjórnvöld hafa þegar hafið óformlegar fríverslunarviðræður við tólf ríki um allan heim. Þetta upplýsti Liam Fox, ráðherra alþjóðaviðskipta í ríkisstjórn Bretlands, í grein í breska dagblaðinu Daily Telegraph fyrr í vikunni. Markmiðið sé að undirbúa fríverslunarsamninga sem hægt verði að undirrita um leið og Bretar segi sig formlega úr Evrópusambandinu.
Fram kemur í frétt blaðsins að stefnt sé að því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið árið 2019. Bresk stjórnvöld séu þegar í viðræðum við ríki eins og Kína, Indland, Ástralíu, Suður Kóreu, Sádi Arabíu og Óman. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, upplýsti í ræðu í fyrradag að Bretland ætlaði að yfirgefa innri markað Evrópusambandsins enda væri það forsenda þess að landið gæti samið um sjálfstæða fríverslunarsamninga við önnur ríki.
„Þegar við förum [úr Evrópusambandinu] munum við koma á fót nýjum tengslum við ríki eins og Ástralíu, Nýja Sjáland og Indland. Við erum að viðræðum um viðskipti við mörg ríki með það fyrir augum að kanna hvar hægt sé að fjarlægja hindarnir í vegi viðskipta og fjárfestinga með gagnkvæma hagsmuni í huga,“ segir Fox í grein sinni og ennfremur:
„Við þurfum hámarks frelsi til þess að ná þessum markmiðum og fyrir vikið var það rétt hjá forsætisráðherranum að útiloka fulla aðild að tollabandalagi Evrópusambandsins. Það er heill heimur sem við getum átt í viðskiptum við og það er einmitt það sem við ætlum að gera.“
Ráðamenn í Evrópusambandinu hafa reynt að fyrirskipa Bretum að standa ekki í neinum formlegum viðræðum um viðskipti fyrr en Bretland hefur yfirgefið sambandið segir í fréttinni.