Samtök fyrirtækja í fjármálahverfi London, höfuðborgar Bretlands, hafa snúið við blaðinu og lýst sig jákvæð fyrir útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Samtökin börðust fyrir því að Bretland yrði áfram innan sambandsins í aðdraganda þjóðaratkvæðisins síðasta sumar þar sem meirihluti kjósenda greiddi atkvæði með útgöngu landsins sem nefnd hefur verið Brexit.
Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að samtökin, TheCityUK, telja nú Brexit fela í sér tækifæri sem Bretar hafi ekki staðið frammi fyrir áður til þess að móta nýja og öfluga stefnu í fjárfestingum og viðskiptum. Samtökin hafa að sama skapi lýst því yfir að vera Bretlands í Evrópusambandinu hafi verið eins og spennitreyja varðandi möguleika Breta til þess að stunda alþjóðleg viðskipti og eiga í samskiptum við ríki utan sambandsins.
Bresk stjórnvöld stefna að því að hefja formlegt útgönguferli Bretlands úr Evrópusambandinu í lok mars en neðri deild breska þingsins lagði blessun sína yfir þau áform í vikunni. Bretar hafa lagt áherslu á að yfirgefa um leið innri markað sambandsins og hafa þannig ekki í hyggju að vera áfram aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) líkt og til að mynda Ísland.