Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segist óttast að útganga Breta úr Evrópusambandinu muni verða þess valdandi að gjá myndist milli þeirra 27 aðildarríkja sem eftir standa. Hefur Reuters-fréttastofan eftir Juncker að hann óttist að ólík loforð og samningar sem þjóðirnar heiti hver annarri meðan á Brexit-viðræðunum standi muni verða þess valdandi.
„Hinar Evrópuþjóðirnar 27 vita það ekki enn þá, en Bretar vita mjög vel hvernig þeir eiga að taka á þessu,“ sagði Juncker í samtali við Deutschlandfunk radio. „Þeir geta lofað landi A einu, landi B öðru og svo landi C einhverju allt öðru. Lokaleikurinn væri svo sá að ESB-ríkin semdu ekki lengur sem ein heild.“
Breska ríkisstjórnin mun hefja formlegar útgönguviðræður úr ESB fyrir lok næsta mánaðar og telja margir viðræðurnar eiga eftir að reyna mjög á samstöðu ríkja sambandsins, sem þegar er að takast á við fjölda annarra vandamála, eins og að halda Grikklandi innan Evrópusvæðisins, að taka á flóttamannavandanum og þeim spurningum sem kjör Donald Trumps í embætti Bandaríkjaforseta hefur vakið.
Til að bæta gráu ofan á svart eru hægri öfgaflokkar í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi nú að styrkjast, en kosningar fara fram í öllum löndunum þremur í ár og er búist við að flokkarnir bæti þá stöðu sína.
„Allir segja nú með tilliti til Trump og Brexit: Þetta er stóra tækifærið fyrir Evrópu. Nú er tíminn til að snúa saman bökum og ganga í takt,“ sagði Juncker í viðtalinu sem útvarpsstöðin flytur í heild sinni á morgun. „Ég vildi óska að það yrði svo, en mun það gerast? Ég hef mínar efasemdir af því að Bretar munu án mikilla vandkvæða ná að mynda gjá milli ESB-ríkjanna sem eftir eru.“
Juncker mun taka á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Brussel í næstu viku. Sagði hann að verndarstefna Trump-stjórnarinnar í viðskiptamálum geti reynst ESB ríkjunum tækifæri til að mynda ný viðskiptatengsl.
„Það er tækifæri sem við verðum að grípa,“ sagði Juncker. „Og við eigum ekki að leyfa Bretum að halda áfram að reyna að ná viðskiptasamningum, því þeim er ekki heimilt að gera slíkt.“ Bætti Juncker við að á meðan Bretland væri enn hluti af Evrópusambandinu væri það framkvæmdastjórn ESB sem sæi um alla viðskiptasamninga.