Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur staðið sig best í embætti af þeim sem gegnt hafa forsætisráðherraembættinu undanfarna tvo áratugi samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem fyrirtækið Opinium gerði nýverið. Þetta kemur fram í frétt breska viðskiptablaðsins City A.M. en könnunin náði til rúmlega tvö þúsund Breta.
Fram kemur í niðurstöðunum að 39% Breta telji May standa sig vel sem forsætisráðherra. Einungis Margaret Thatcher fær betri útkomu hvað það varðar eða 40%. Hins vegar telja færri að May standi sig illa eða 24% samanborið við 35% sem telja að Thatcher hafi ekki staðið sig vel í forsætisráðherraembættinu á sínum tíma. Samantekið er því útkoma May talsvert betri en Thatchers sem var forsætisráðherra 1979-1990.
Rúmur fjórðungur, eða 26%, telja David Cameron hafa staðið sig vel sem forsætisráðherra en 42% að hann hafi staðið sig illa. Einungis 13% telja að Gordon Brown hafi gert góða hluti í embættinu en 48% eru öndverðrar skoðunar. Útkoman er ekki mikið betri fyrir Tony Blair en 49% telja hann hafa staðið sig illa og 22% að hann hafi staðið sig vel. Þá telja 20% að John Major hafi staðið sig vel sem forsætisráðherra en 31% að hann hafi ekki gert það.
Þeir Cameron og Major voru forsætisráðherrar fyrir Íhaldsflokkinn líkt og May og Thatcher en Brown og Blair fóru hins vegar fyrir ríkisstjórnum Verkamannaflokksins. May og Thatcher eru einu konurnar sem gegnt hafa breska forsætisráðherraembættinu.
Niðurstöður skoðanakönnunarinnar lágu fyrir nokkrum dögum áður en May kom lagafrumvarpi sínum um að hefja formlega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í gegnum neðri deild breska þingsins án þess að gerðar yrðu breytingar á því.