Þrír stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á danska þinginu hafa myndað með sér bandalag sem er ætlað að koma í veg fyrir að boðað verði til þjóðaratkvæðis í Danmörku um áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu með hliðstæðum hætti og gert var í Bretlandi.
Flokkarnir þrír, Sósíalíski vinstriflokkurinn, Radikal venstre og umhverfisflokkurinn Alternativet, telja nauðsynlegt að útiloka þjóðaratkvæði um veruna í Evrópusambandinu til þess að gera alþjóðlegum fjárfestum auðveldara með að vita hvað framtíðin beri í skauti sínu í Danmörku sem aftur skipti miklu máli fyrir danskt efnahagslíf samkvæmt frétt Thelocal.dk.
Flokkarnir þrír vonast til þess að fá aðra stjórnmálaflokka á danska þinginu sem hlynntir eru áframhaldandi veru Danmerkur í Evrópusambandinu til þess að heita því að slíkt þjóðaratkvæði verði ekki haldið. Takist það verða aðeins tveir stjórnmálaflokkar sem styðja þjóðaratkvæði, Danski þjóðarflokkurinn og vinstriflokkurinn Einingarlistinn.