Leitin að fjölskyldunni sem hvarf

Bifreið Sebastien Troadec.
Bifreið Sebastien Troadec. AFP

Franska lögreglan fann í gær bifreið Sébastien Troadec, 21 árs, en hans hefur verið saknað ásamt foreldrum og yngri systur, Charlotte, í tvær vikur. Bifreiðin fannst í Saint Nazaire sem er í 50 km fjarlægð frá heimili fjölskyldunnar í Orvault.

Troadec-fjölskyldan, hjónin Pascal og Brigitte og börn þeirra Charlotte og …
Troadec-fjölskyldan, hjónin Pascal og Brigitte og börn þeirra Charlotte og Sebastien. AFP

Buxur og skilríki Charlotte, 18 ára, fundust á miðvikudag skammt fyrir utan bæinn Dirinon sem er í um það bil þriggja tíma akstursfjarlægð frá heimili þeirra í  Orvault (Loire-Atlantique). Ekkert hefur spurst til fjölskyldunnar síðan 16. febrúar og er eins og tíminn hafi stöðvast á heimili þeirra, leirtau í eldhúsvaskinum og þvottur hangir uppi til þerris. Málið er eitt það dularfyllsta sem hefur komið upp í Frakklandi í mörg ár og fylgist franska þjóðin grannt með leitinni að fjölskyldunni sem hvarf. 

Peugeot 308-bifreið Sébastien Troadec fannst síðdegis í gær að sögn saksóknara í Nantes, Pierre Sennes, en hann stýrir rannsókninni á hvarfi fjölskyldunnar. Að sögn lögreglu er Sébastien grunaður um að hafa ætlað að drepa fjölskyldu sína og fremja síðan mögulega sjálfsvíg. 

AFP

Bifreið Sébastien fannst á bílastæði við kirkju skammt frá höfninni í Saint-Nazaire en bifreiðarinnar hefur verið leitað allt frá því rannsókn á hvarfi fjölskyldunnar hófs. Bifreiðar foreldranna fundust fyrir utan heimili þeirra í Orvault. 

Le Monde greinir frá því í dag að blóðleifar hafi fundist í gærkvöldi í bifreiðinni en tæknideild lögreglunnar rannsakaði bílinn í gærkvöldi, samkvæmt heimildum blaðsins. Enginn var í bilnum hefur Le Monde eftir Sennes.

Blóð úr foreldrunum og Sébastian fundust á heimili fjölskyldunnar en ekki úr Charlotte þegar fyrst var leitað í húsinu. Samkvæmt Le Monde hafa fundist frekari lífsýni, þar á meðal blóð, þar eftir að sérstök efni voru notuð sem greina blóð þrátt fyrir að reynt sé að hreinsa það í burtu.

Er nú rannsakað úr hverjum blóðið er í bílnum og hafa sérfræðingar frá Ecully (Rhône) verið fengnir til þess að rannsaka lífsýni sem fundust á heimili fjölskyldunnar og í bíl Sébastians. 

Heimildir Le Monde herma að það sé eins og bíllinn hafi verið þrifinn hátt og lágt, innan sem utan. Ekkert teppi var lengur í skotti bifreiðarinnar en áfram er unnið að rannsókn á bifreiðinni af tæknideild lögreglunnar. 

AFP

Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar fann hlaupari buxur Charlotte og sjúkrasamlagsskírteini hennar í vasa á buxunum skammt fyrir utan bæinn Dirinon á Bretagne. Bærinn, sem er skammt frá hafnarbænum Brest, er í 280 km fjarlægð frá heimili fjölskyldunnar í Orvault en sá bær er rétt fyrir utan borgina Nantes í vesturhluta Frakklands. Franskir fjölmiðlar greina frá því í dag að buxurnar hafi verið í slæmu ásigkomulagi og þrátt fyrir að lítill árangur hafi náðst í leitinni í gær verði henni haldið áfram í dag. 

Heimildir herma að foreldrarnir, Pascal og Brigitte sem eru bæði 49 ára gömul, séu frá Brest. Þegar tilkynnt var um fundinn lokaði lögreglan leiðum inn í Dirinon og er leitað vísbendinga sem geta útskýrt hvernig heil fjölskylda getur horfið sporlaust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert