Breska þingið hefur gefið samþykki sitt fyrir frumvarpi forsætisráðherrans Theresu May um að hefja brottgöngu Breta úr Evrópusambandinu, á sama tíma og stjórnvöld í Skotlandi hafa tilkynnt fyrirætlun sína um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi.
Lávarðadeildin hafnaði nú seint í kvöld tilraunum til að breyta frumvarpi May, um að hún megi hefja viðræður við Evrópusambandið. Frumvarpið verður nú sent til krúnunnar og gæti jafnvel orðið að lögum á morgun.
Forsætisráðherrann gæti þá virkjað 50. grein Lissabon-sáttmálans hvenær sem er og þannig hafið viðræður sem búist er við að muni standa yfir í tvö ár. Að þeim loknum verður Bretland fyrsta fullvalda ríkið til að yfirgefa sambandið.
Talsmaður May virtist hafna öllum bollaleggingum um að lagagreinin verði virkjuð á morgun, eftir samþykki drottningarinnar.
„Við höfum talað skýrt um það að forsætisráðherrann muni virkja 50. greinina í lok marsmánaðar,“ sagði talsmaðurinn fyrir atkvæðagreiðslu þingsins og lagði mikla áherslu á orðið „lok“.
Tilhugsunin um að brátt hæfust viðræður um brottgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og það sjálfstæði sem margir Bretar vænta í kjölfarið, var næg hvatning fyrir heimastjórn Skota til að kalla eftir nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.
May hefur sagt að Bretland muni yfirgefa innri markað Evrópu til að minnka fólksflutninga til landsins. Skoski þjóðarflokkurinn hefur hins vegar varað við því að slíkt muni skaða atvinnulíf og hagvöxt innan landsins.
Leiðtogi þeirra og forsætisráðherra heimastjórnarinnar, Nicola Sturgeon, hefur allt frá því að niðurstöður Brexit-kosninganna urðu ljósar í júní sagt að Skotland sækist eftir annars konar framtíð. Meirihluti Skota studdi enda áframhaldandi veru innan sambandsins.