Fjöldi skráninga ríkisborgara Evrópusambandsríkja sem hjúkrunarfræðinga í Bretlandi hefur dregist saman um 92% frá því að Bretar samþykktu að ganga úr ESB í júní sl. Þá hefur metfjöldi sagt upp störfum hjá bresku heilbrigðisþjónstunni, NHS.
Þróunin þykir benda til þess að þrákelkni forsætisráðherrans Theresu May gagnvart því að gefa fyrirheit um stöðu ríkisborgara ESB í Bretlandi í kjölfar úrsagnar sé að bæta á mönnunarvanda heilbrigðisþjónustunnar.
Einungis 96 hjúkrunarfræðingar frá Evrópusambandsríkjunum réðu sig til starfa hjá NHS í desember sl. en þeir voru 1.304 í júlí. Þá yfirgáfu um 2.700 hjúkrunarfræðingar frá ESB-ríkjunum heilbrigðisþjónustuna árið 2016, samanborið við 1.600 árið 2014.
May hefur sagt að Bretland geti ekki tekið einhliða ákvörðun um að lofa íbúum frá öðrum ESB-ríkjum áframhaldandi búsetu, þar sem það myndi veikja samningsstöðuna þegar kemur að samningaviðræðum við sambandið um úrsögnina.
Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.