Fátt virðist standa í vegi þess að Bretland segi skilið við Evrópusambandið í kjölfar þess að báðar deildir breska þingsins samþykktu á dögunum lagaheimild til ríkisstjórnar landsins til þess að hefja formlega úrsagnarferlið úr sambandinu sem nefnt hefur verið Brexit.
Lagafrumvarpið var samþykkt óbreytt eins og ríkisstjórnin lagði það fram þrátt fyrir tilraunir til breytinga. Meðal annars var lögð fram breytingatillaga um að endanlegur samningur á milli Bretlands og Evrópusambandsins um úrsögnina þyrfti samþykki breska þingsins. Þeirri breytingum var hafnað eins og öðrum og því er úrsögnin í höndum ríkisstjórnarinnar.
Forsaga málsins er sú að meirihluti breskra kjósenda, eða 52%, samþykkti í þjóðaratkvæði síðasta sumar að ganga úr Evrópusambandinu en innan þess og forvera þess hafa Bretar verið frá árinu 1972. Breski Íhaldsflokkurinn bauð fram undir þeirri stefnu fyrir þingkosningarnar 2015 að næði flokkurinn þingmeirihluta yrði boðað til slíks þjóðaratkvæðis.
Tilefni þeirrar ákvörðunar var einkum af tvennum toga. Veran í Evrópusambandinu hafði lengi verið deiluefni innan Íhaldsflokksins og forystumenn flokksins óttuðust að tapa fylgi til Breska sjálfstæðisflokksins sem lagði megináherslu á úrsögn úr sambandinu. Svo fór að Íhaldsflokkurinn náði meirihluta og var því boðað til þjóðaratkvæðisins.
Breska ríkisstjórnin undir forystu Theresu May forsætisráðherra hafi upphaflega ekki í hyggju að leita eftir samþykkti þingsins og taldi málið alfarið vera á sínu forræði. Höfðað var mál fyrir dómstólum til þess að hnekkja því og var niðurstaða þeirra að samþykki þingsins þyrfti að liggja fyrir. Fyrir vikið lagði ríkisstjórnin fram áðurnefnt lagafrumvarp.
May stefnir að því að hefja formlega úrsagnarferlið úr Evrópusambandinu í lok þessa mánaðar með því að virkja grein 50 í Lissabon-sáttmála sambandsins. Samkvæmt greininni hefst þá tveggja ára tímabil sem nýta þarf til þess að semja um úrsögnina. Evrópusambandið hefur þó sagt að hugsanlega verði aðeins svigrúm til viðræðna í 18 mánuði.
Bresk stjórnvöld stefna að því að semja við Evrópusambandið um tengsl Bretlands við sambandið eftir úrsögnina í viðræðunum og þar með um tvíhliða fríverslunarsamning. Þau hafa hafnað þeirri hugmynd að Bretar verið áfram aðilar að EES-samningnum líkt og Ísland, Noregur og Liechtenstein eftir að úr Evrópusambandinu verður komið.
May hefur hins vegar lýst því yfir að takist ekki að landa tvíhliða fríverslunarsamningi við Evrópusambandið muni Bretland yfirgefa sambandið án samnings. Enginn samningur sé betri en slæmur samningur. Komi til þess munu reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um milliríkjaviðskipti gilda um viðskipti Bretlands við sambandið.
Töluvert stór hluti af umræðunni um fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefur snúist um Skotland. Ástæðan er sú að skoskir ráðamenn hafa kallað eftir nýju þjóðaratkvæði um sjálfstæði landsins frá breska konungdæminu. Síðast var kosið um málið 2014 og sjálfstæði þá hafnað. En skoskir ráðamenn segja forsendur breyttar.
Rökin eru þau að þrátt fyrir að meirihluti Breta hafi kosið með úrsögn úr Evrópusambandinu hafi meirihluti Skota lagst gegn henni. Útgangan væri því í óþökk meirihluta skoskra kjósenda. Varað var við því í aðdraganda þjóðaratkvæðisins síðasta sumar að Skotar gætu yfirgefið breska konungdæmið en engu að síður var úrsögnin samþykkt.
Theresa May hefur þegar hafnað þjóðaratkvæði um sjálfstæði Skotlands fyrr en eftir að samið hefur verið um útgönguna úr Evrópusambandinu og komin verði reynsla á hana. Skotar verði að vita hvaða valkostum þeir standi frammi fyrir. Þá sé rétt að skoskir ráðmenn sýni í skosku þingkosningunum 2021 að þeir hafi stuðning kjósenda til að halda þjóðaratkvæði.
Þetta þýðir að þjóðaratkvæði um skoskt sjálfstæði fer í fyrsta lagi fram árið 2023 en 18 mánuðir eru taldir nauðsynlegir til þess að undirbúa slíka kosningu. Forystumenn Skota hafa brugðist ókvæða við og hefur Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagt að um sé að ræða „lýðræðislegt hneyksli“ og heitið því að leita allra leiða til að bregðast við stöðunni.
Skiptar skoðanir eru um það hvort hagsmunum Bretlands verði borgið með reglum WTO en ríkisstjórn May hefur lagt áherslu á að á móti komi að í bígerð séu fríverslunarsamningar við fjölmörg ríki um allan heim. Með inngöngu í Evrópusambandið framseldu Bretar réttinn til þess að semja um viðskipti við önnur ríki fyrir þeirra hönd til sambandsins.
Fljótlega eftir að niðurstaða þjóðaratkvæðisins síðasta sumar lá fyrir lýstu ýmis ríki yfir áhuga á að semja um fríverslun við Bretland. Í kjölfarið hafa bresk stjórnvöld hafi þreifingar í þeim efnum við nokkur ríki og þá einkum ríki innan breska samveldisins. Þykir muna mestu um að Bandaríkin hafi tekið vel í gerð slíks viðskiptasamnings við Bretland.
Vilji ríkja víða um heim til þess að semja um fríverslun við Bretland byggist einkum á viðleitni til þess að verja eigin hagsmuni en einnig vilja til að viðhalda góðum tengslum við Breta eftir að þeir yfirgefa Evrópusambandið. Við það bætast rík söguleg og menningarleg tengsl við Bretland í tilviki samveldislanda þeirra eins og Kanada og Ástralíu.
Vangaveltur hafa verið uppi um að Bretland kunni að gerast aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) eftir útgönguna úr Evrópusambandinu en enn er alls óvíst hvort til þess komi. Ríkur vilji virðist hins vegar fyrir því að efla tengslin við helstu samveldislöndin og þá mögulega með frjálsri för fólks og náinni samvinnu á ýmsum sviðum.
Breska ríkisstjórnin virðist harðákveðin í því að sjá til þess að Bretland yfirgefi Evrópusambandið í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðasta sumar. Til þess þarf hún ekki samþykki breska þingsins og er sú ákvörðun því í raun alfarið í hennar höndum. Úrsögnin er heldur ekki háð því að samningur náist við sambandið.
Spurningin virðist þannig ekki vera hvort Bretland gangi úr Evrópusambandinu heldur einungis með hvaða hætti það verði gert.