Hefja úrsagnarferlið 29. mars

Brexit færist nær.
Brexit færist nær. AFP

Bretar munu hefja formlegt úrsagnarferli gagnvart Evrópusambandinu 29. mars. Þá munu þeir virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans, níu mánuðum eftir að úrslit úr þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit lágu fyrir.

„Við viljum að viðræðurnar hefjist tafarlaust,“ sagði talsmaður forsætisráðherrans Theresu May við blaðamenn.

Ráðuneytið sem fer með úrsögnina sagði í yfirlýsingu í morgun að Tim Barrow, sendifulltrúi Bretlands í Brussel, hefði tilkynnt Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, að Bretar hygðust virkja 50. greinina miðvikudaginn 29. mars.

Haft var eftir Brexit-ráðherranum David Davis að Bretar hefðu tekið sögulega ákvörðun um að yfirgefa sambandið í atkvæðagreiðslunni 23. júní 2016.

„Við stöndum á mörkum mikilvægustu samningaviðræðna þessa lands í heila kynslóð,“ sagði hann en samkvæmt 50. greininni er tímarammi viðræðnanna tvö ár.

May hefur sagt að hún sé tilbúin að yfirgefa sameiginlegan markað Evrópu til að geta sett eigin reglur um aðflutning fólks.

Framkvæmdastjórn Evrópu er sögð munu svara tilkynningu Breta innan tveggja sólahringa en viðræður munu ekki hefjast fyrr en eftir einhverjar vikur eða jafnvel mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert