Bresk flugfélög flytji til ESB vegna Brexit

British Airways er eitt þeirra flugfélaga sem hefur verið varað …
British Airways er eitt þeirra flugfélaga sem hefur verið varað við áhrifum Brexit á starfsemi flugfélagsins innan ESB. AFP

Breskum flugfélögum er ráðlagt að flytja höfuðstöðvar sínar til ríkja ESB fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, vilji þau halda flugleiðum sínum innan ESB óbreyttum eftir útgönguna. Fréttavefur Guardian segir ráðamenn ESB hafa varað easyJet, Ryanair og British Airways við að flugfélögin þurfi að flytja höfuðstöðvar sínar og selja hlutabréf til ríkisborgara ESB svo ekki verði breytingar á flugleiðum þeirra.

Guardian segir stjórnendur stærstu flugfélagana hafa verið minnta á lokuðum fundum með ráðamönnum ESB, að til þess að halda áfram flugleiðum innan ríkja ESB, t.d. á milli Mílanó og Parísar – þá verði umfangsmikill hluti starfsemi þeirra að vera innan ESB og að meirihluti hlutabréfa verði sömuleiðis að vera í eigu ríkisborgara ESB.

Búast við að Bretar svari í sömu mynt

Aðeins nokkrir dagar eru nú þar til Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hyggst virkja 50. grein Lissabon sáttmálans og hefja þar með formlega útgöngu Breta úr ESB. Guardian segir þá ákvörðun auka á líkur þess að flugfélögin verði við kröfum ESB og endurskipuleggi starfsemi sína, sem að öllum líkindum hafi efnahagslegar afleiðingar fyrir Bretland, m.a. með fækkun starfa.

Guardian telur að búast megi við að bresk stjórnvöld sína sambærilega óbilgirni og að líklegt sé að þau setji sínar eigin reglur sem muni gera evrópskum flugfélögum erfiðara um vik að stunda starfsemi í Bretlandi.

Aðgengi að flugleiðum milli ríkja ESB hefur verið stór þáttur í viðskiptamódeli flugfélaga á borð við easyJet og vinnur flugfélagið nú að því að koma á fót starfsemi í Evrópu. Forsvarsmenn þess fullyrða þó að höfuðstöðvar easyJet verði áfram í Bretlandi.

Segir bresku stjórnina sýna „léttbrjálaða bjartsýni“

EasyJet er nú að 84%-hlut í eigu ESB borgara, en það hlutfall mun lækka niður í 49% með tilkomu Brexit. Ryanair er nú að 60% hlut í eigu ESB borgara, en hlutfallið mun lækka niður í 40% með útgöngunni úr ESB.

Talsmaður Ryanair segir að flugfélagið muni aðlagast breyttum aðstæðum. Forstjóri Ryanair, Michael O’Leary, hefur engu að síður varað við hættunni sem flugiðnaðinum stafi af Brexit og gagnrýnt „léttbrjálaða bjartsýni“ bresku stjórnarinnar í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert