Formlegt útgönguferli hafið

Fánar Bretlands og ESB blakta við þinghúsið í Westminster. Útganga …
Fánar Bretlands og ESB blakta við þinghúsið í Westminster. Útganga Breta úr sambandinu er nú formlega hafin. AFP

Tim Barrow, sendi­herra Bret­lands gagn­vart Evr­ópu­sam­band­inu, hefur afhent Don­ald Tusk, for­seta leiðtogaráðs sam­bands­ins, bréf sem inniheldur formlega tilkynningu um úrsögn Breta úr sambandinu. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, undirritaði bréf í gær með með breska fán­ann sér við hlið og mál­verk af Robert Walpole, fyrsta for­sæt­is­ráðherra Bret­lands, á veggn­um fyr­ir aft­an sig. 

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, undirritaði bréfið með breska fánann sér …
Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, undirritaði bréfið með breska fánann sér við hlið í gær. AFP

Þar með hefur nú grein 50 í Lissa­bon-sátt­mála Evr­ópu­sam­bands­ins verið virkjuð sem kveður á um með hvaða hætti ríki geti sagt skilið við sam­bandið. Viðræður um úr­sögn­ina munu nú hefjast. „Þetta er sögulegt augnablik og ekki verður aftur snúið,“ sagði May í þingsal í dag. Hún kallaði eftir samstöðu um málið. 

 Meiri­hluti breskra kjós­enda samþykkti í þjóðar­at­kvæðagreiðslu síðasta sum­ar að ganga úr Evr­ópu­sam­band­inu og breska þingið lagði bless­un sína yfir þá niðurstöðu fyrr í þess­um mánuði. Bretland hefur verið hluti af Evrópusambandinu í 44 ár. 

Í frétt AFP kemur fram að með afhendingu bréfsins þá sé formlega hafinn tveggja ára tím­arammi sem Evr­ópu­sam­bandið og bresk stjórn­völd hafa til þess að semja um for­send­ur út­göng­unn­ar.

Hvað mun nú gerast?

Mikil óvissa ríkir um hvaða áhrif útganga Bretanna mun hafa. Ekkert sambandsríki hefur áður yfirgefið ESB.

Fyrsta skrefið í útgönguferlinu verður það, að því er fram kemur í fréttaskýringu CNN, að ríkisstjórn May mun leggja fram lagafrumvarp, Stóra ógildingar-frumvarpið eins og það er kallað. Frumvarpið kveður á um afnám alls valds sem Evrópusambandið hefur í Bretlandi samkvæmt lögum. Áður en að til þess kemur að fullu verður öll núverandi löggjöf sambandsins sem gildir í Bretlandi flutt yfir í breska lagasafnið. Bretar hafa ekki innleitt alla Evrópulöggjöfina í bresk lög hingað til, heldur hefur hún tekið gildi þar um leið og hún hefur verið samþykkt af stofnunum ESB.

Í kjölfarið mun svo breska þingið fá það verkefni að ákveða hvaða lögum ESB skuli halda og hverjum sleppa. Um 20.000 lagagerðir sambandsins eru í gildi, allt frá því hvernig orkugjafa beri að nota og til þess hversu mikil sveigja megi vera á banana sem seldur í er verslunum.

Tim Barrow, sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu, á leið til fundar …
Tim Barrow, sendiherra Bretlands gagnvart Evrópusambandinu, á leið til fundar við Donald Tusk for­seta leiðtogaráðs sam­bands­ins, til að afhenta bréfið, undirritað af Theresu May. AFP

En hver eru stóru verkefnin framundan?

Einn hornsteinn sambandsins er að borgarar aðildarríkjanna geta heimsótt, unnið, lært og búið hvar sem er innan þess. Nú þarf að ákveða hvernig Bretar vilja haga þessum málum í kjölfar úrsagnarinnar. 

Þá verða flóttamanna- og hælisleitendamál eflaust fyrirferðamikil. Meta verður hvort að Bretland verði til dæmis áfram aðili að Dyflinnarsáttmálanum sem kveður á um að hafi hælisleitandi haft viðkomu í öðru Evrópulandi áður en hann kemur til Bretlands (eða annars ríki innan ESB) megi senda hann aftur til fyrsta viðkomulands. Í frétt CNN kemur fram að Bretar verði að semja upp á nýtt um aðild að þessu samkomulagi.

Þá er mikil óvissa um aðgang að mörkuðum, tollamál og  þar með áhrifin á viðskiptalífið í Bretlandi sem og ESB í heild. Talið er að samningsviðræður við ESB um þetta atriði verði hvað fyrirferðamestar og flóknastar. Margir telja það þó vel mögu­legt að ná metnaðarfull­um fríversl­un­ar­samn­ingi á milli Bret­lands og ESB.

Bananar sem seldir eru innan ESB verða að hafa ákveðið …
Bananar sem seldir eru innan ESB verða að hafa ákveðið mikla sveigju og vera auk þess að minnsta kosti fjórir saman í knippi. AFP

Bognari bananar eftir Brexit?

En önnur minni mál verður einnig að tækla. Lengi hefur verið gert grín að reglum ESB um banana. Samkvæmt reglugerð sambandsins frá 1994 verða bananar að vera lausir við „óeðlilega sveigju“, vera meira en fjórtán sentímetrar að lengd og seljast saman í knippum sem ekki telja færri en fjóra. Það er því mögulegt að breskir banananar verði bognari en áður eftir að Brexit tekur gildi að fullu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert