Evrópusambandið krefst þess að Bretlandi „verði nægjanlega ágengt“ í skilnaði sínum við sambandið, áður en viðræður um viðskiptasamning þeirra á milli geti hafist. Felst krafan í viðræðuáætlunum ESB sem birtar voru í morgun.
Theresa May, forsætisráðherra Breta, hafði í bréfi sínu til forseta Evrópusambandsins á miðvikudag kallað eftir því að viðræður um viðskiptasamning færu fram samhliða og hæfust um leið og viðræður vegna úrsagnarinnar.
Mikil óvissa ríkir um hvaða áhrif útganga Bretanna mun hafa. Ekkert aðildarríki hefur áður yfirgefið sambandið í sextíu ára sögu þess.
Bretland gerðist aðili að forvera Evrópusambandsins, Efnahagsbandalagi Evrópu, í byrjun árs 1973 og hefur því verið innan sambandsins og forvera þess í 44 ár.