Telja rétt að ganga úr Evrópusambandinu

Brexit London
Brexit London AFP

Mikill meirihluti Breta styður þau áform ríkisstjórnar Bretlands að segja skilið við Evrópusambandið samkvæmt niðurstöðum nýrrar víðtækrar skoðanakönnunar fyrirtækisins YouGov. Þar kemur fram að 69% telja bresk stjórnvöld gera rétt með því að ganga úr sambandinu. Einungis 21% er andvígt því og telja að koma þurfi í veg fyrir þau áform.

Ennfremur segir að af þeim sem telja rétt að ganga úr Evrópusambandinu hafi 44% kosið með þeim hætti í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór í Bretlandi síðasta sumar þar sem 52% kusu með því að yfirgefa sambandið. Fjórðungur þeirra kusu gegn því að ganga úr Evrópusambandinu en telja engu að síður stjórnvöld gera rétt í ljósi niðurstöðunnar.

Samþykkt var í þjóðaratkvæðinu síðasta sumar með 52% atkvæða gegn 48% að yfirgefa Evrópusambandið. Fram kemur á vefsíðu YouGov að frá atkvæðagreiðslunni hafi ekki orðið vart við að margir sjái eftir hvernig þeir greiddu atkvæði. Mikið jafnvægi hafi verið frá þjóðaratkvæðinu þegar komi að afstöðu fólks til þess hvort það hafi gert kosið rétt.

Brexit
Brexit AFP

Þannig segir að dregið hafi aðeins saman með fylkingunum en ástæða þess sé fyrst og fremst sú að fólk sem ekki hafi kosið í þjóðaratkvæðinu hafi tilhneigingu til þess að styðja áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Hins vegar séu þeir sem skipt hafi um skoðun í aðra hvora áttina álíka margir og hinir. Fyrir vikið jafnist það nokkurn veginn út.

Vilja ekki annað þjóðaratkvæði um útgönguna

Takmarkaður er áhugi á því að halda annað þjóðaratkvæði um niðurstöður viðræðna Evrópusambandsins og Bretlands um úrsögn landsins samkvæmt könnuninni. 45% telja að breska ríkisstjórnin eigi að klára málið án frekari aðkomu þings og þjóðar, 27% vilja annað þjóðaratkvæði og 15% vilja að þingið greiði atkvæði um væntanlegan samning.

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hefur sagt að hún sé reiðubúin að ganga frá samningaborðinu ef ekki verði í boði nægjanlega góður samningur. Enginn samningur sé betri en slæmur samningur. Meirihluti Breta er sammála þessu samkvæmt skoðanakönnuninni eða 55%. Tæpur fjórðungur telur rétt að fallast á þann samning sem verði í boði.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ennfremur er góður stuðningur við það með hvaða hætti May hyggst ganga úr Evrópusambandinu. Það er að sækjast eftir tvíhliða, víðtækum fríverslunarsamningi. Þannig telja 61% að leið forsætisráðherrans virði niðurstöðu þjóðaratkvæðisins en 11% telja svo ekki vera. Tæpur helmingur, eða 49%, segjast ánægð með þá leið en fjórðungur óánægður.

Þá hafa fleiri trú á að May geti skilað góðri niðurstöðu fyrir Bretland í viðræðunum við Evrópusambandið en þeir sem hafa það ekki eða 48% gegn 39%. Fleiri telja þó að ríkisstjórnin hafi staðið sig illa í viðræðunum en vel sem gæti að sögn fyrirtækisins einfaldlega skýrst af því að viðræðurnar væru enn ekki hafnar. Fleiri telja hins vegar að útgangan úr sambandinu hafi gengið of hægt fyrir sig en að þær hafi gengið of hratt fyrir sig.

Útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu mótmælt.
Útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu mótmælt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert