Öryggisyfirvöld í Rússlandi hafa greint frá því að sprengja hafi fundist á Ploshchad Vosstaniya-neðanjarðarlestarstöðinni í St. Pétursborg. Búið er að gera búnaðinn óvirkan.
Fjöldi látinna eftir sprenginguna í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar í hádeginu er nokkuð á reiki; öryggisyfirvöld segja níu látna en talsmaður borgaryfirvalda tíu. Þá eru 20-50 sagðir hafa særst í sprengingunni.
Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér, enn sem komið er.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem árásarmenn láta til skarar skríða gegn almenningssamgöngum í Rússlandi en árið 2013 létust 30 og 62 slösuðust í tveimur sprengingum á tveimur dögum í borginni Volgograd.
Um var að ræða sjálfsmorðsárásir en önnur átti sér stað á lestarstöð 29. desember og hin í strætó 30. desember.
Í október sama ár létust sex í Volgograd þegar árásarmaður virkjaði sprengjubúnað í strætó.
Að minnsta kosti 38 í sprengjuárás í neðanjarðarlestarkerfi Moskvu árið 2010. Þá létust 27 og 130 særðust þegar spregja sprakk í lest á milli Moskvu og St. Pétursborgar árið 2009.
Í öllum tilvikum lýstu íslamistar árásunum á hendur sér.