„Skildi ekki hvað ég var að gera“

Akbarjon Djalilov varð níu að bana þegar hann sprengdi sig …
Akbarjon Djalilov varð níu að bana þegar hann sprengdi sig í loft upp milli tveggja lestarstöðva í neðanjarðarlestakerfi St. Pétursborgar. AFP

Abror Azimov, sem er sagður frá Kirgistan, hefur neitað að hafa skipulagt hryðjuverkaárásina í neðanjarðarlestakerfi St. Pétursborgar 4. apríl. Fjórtán létust í árásinni og tugir særðust.

Azimov var handtekinn í Rússlandi í gær en samkvæmt rússneskum miðlum hefur hann sagt að hann hafi verið að fylgja fyrirmælum og ekki gert sér grein fyrir því hvað hann væri að gera.

Áður hafði verið haft eftir lögmanni Azimov að hann hefði játað að hafa skipulagt árásina.

Hinn 22 ára Kirgisi, Akbarzhon Jalilov, er sagður hafa sprengt sprengjuna sem varð fólkinu að bana milli tvegga lestarstöðva. Fleiri en 50 særðust.

Rússneskar öryggissveitir sögðu að Azimov hefði þjálfað Jalilov til að framkvæma verknaðinn. Azimov sagði hins vegar fyrir dómi í dag að hann hefði átt aðild að árásinni en ekki beint. Þá neitaði hann að hafa skipulagt hana.

„Ég skildi ekki hvað ég var að gera. Ég tók við skipunum og fylgdi þeim bara eftir.“

Samkvæmt dagblaðinu Kommersant fann lögregla Azimov með því að kanna tengiliðalista í síma Jalilov. Azimov keypti tvo nýja síma í gær en kom upp um sig þegar hann virkjaði SIM-kortið í öðrum símanum.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert