Rannsaka sprenginguna sem hryðjuverk

Yfirvöld í Rússlandi rannsaka nú sprengingarnar sem urðu í neðanjarðarlestarkerfi Sankti Pétursborgar í morgun sem möguleg hryðjuverk. Ellefu manns fórust í sprengingunni og tæplega 50 slösuðust.

Neðanjarðalestarkerfinu var lokað í nokkrar klukkustundir eftir sprenginguna. Öryggisyfirvöld tilkynntu nokkru síðar að ein sprengja til viðbótar hefði fund­ist á Plos­hchad Vosst­an­iya-neðanj­arðarlest­ar­stöðinni og var hún gerð óvirk.

AFP-fréttastofan hefur eftir öryggisyfirvöldum að málið sé rannsakað sem hryðjuverk, en að allar aðrar mögulegar skýringar á sprengingunum verði einnig skoðaðar.

Sjö létust samstundis

Rússneskir fjölmiðlar hafa í dag sýnt myndir af lestarvagni með hurðina sprengda upp og blóðug  lík liggjandi á víð og dreif um lestarpallinn. Farið var með 39 manns á sjúkrahús til aðhlynningar, m.a. 15 ára stúlku.

Veronika Skvortsova, heilbrigðisráðherra Rússlands, sagði sjö manns hafa farist samstundis. Einn hefði dáið í sjúkrabíl og tveir til viðbótar á sjúkrahúsi. Tilkynnt var nú í kvöld að tala látinna væri komin upp í 11.

„Ég verð hrædd við að taka neðanjarðarlestina núna,“ hefur AFP eftir Mariu Ilyina, sem stóð í nágrenni neðanlestarstöðvarinnar þar sem fólk var farið að leggja blóm til minnis um fórnarlömbin.

Falin í tösku í lestarvagninum

Sprengingin átti sér stað þegar lest var á leið á milli tveggja neðanjarðarlestarstöðva og hefur Reuters-fréttastofan eftir Interfax að talið sé að sprengjan, sem var svonefnd flísasprengja, hafi verið falin í tösku inni í lestarvagninum.

Sprengjan sem tókst að gera óvirka er hins vegar sögð hafa verið falin í slökkvitæki á Plos­hchad Vosst­an­iya-neðanj­arðarlest­ar­stöðinni.

Leita miðaldra manns með skegg

Þá segja rússneskir fjölmiðlar lögreglu nú leita miðaldra manns sem var með skegg og í síðum frakka og með svartan hatt sem sést í eftirlitsmyndavélum í neðanjarðarlestarstöðinni. Hann sést svo nokkrum mínútum síðar fyrir utan lestarstöðina að horfa á síma sinn.

Tvær neðanjarðarlestarlínur voru opnaðar á ný nú síðdegis. Forsvarsmenn neðanjarðarlesta Moskvuborgar tilkynntu þá að öryggi hefði verið hert í lestum borgarinnar, en gripið hefur verið til sambærilegra aðgerða í lestarkerfi margra annarra borga í landinu.

Lýst hefur verið yfir þriggja daga sorg í Sankti Pétursborg og Vladimír Pútin Rússlandsforseti hefur vottað þeim sem misstu ástvini í sprengingunni og þeim sem særðust samúð sína.

Trump og ráðamenn ESB votta Rússum samúð

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti sprengingunni sem „hræðilegum hlut“. „Þetta er að gerast um allan heim. Þetta er hræðilegur hlutur,“ sagði Trump.

Federica Mogherini, sem fer með utanríkismál í framkvæmdaráði ESB, skrifaði á Twitter að hún fylgdist vel með gangi mála ásamt utanríkisráðherrum ríkjanna sem nú funda í Lúxemborg. „Hugur okkar er hjá Rússum,“ skrifaði hún.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem árás­ar­menn láta til skar­ar skríða gegn al­menn­ings­sam­göng­um í Rússlandi en árið 2013 lét­ust 30 og 62 slösuðust í tveim­ur spreng­ing­um á tveim­ur dög­um í borg­inni Volgograd.

Um var að ræða sjálfs­morðsárás­ir en önn­ur átti sér stað á lest­ar­stöð 29. des­em­ber og hin í strætó 30. des­em­ber.

Í októ­ber sama ár lét­ust sex í Volgograd þegar árás­armaður virkjaði sprengju­búnað í strætó.

Að minnsta kosti 38 létust í sprengju­árás í neðanj­arðarlest­ar­kerfi Moskvu árið 2010. Þá lét­ust 27 og 130 særðust þegar spregja sprakk í lest á milli Moskvu og St. Pét­urs­borg­ar árið 2009.

Í öll­um til­vik­um lýstu íslam­ist­ar árás­un­um á hend­ur sér.

Fólk lagði blóm og kerti í nágrenni neðanjarðarlestarstöðvarinnar til að …
Fólk lagði blóm og kerti í nágrenni neðanjarðarlestarstöðvarinnar til að minnast fórnarlambanna. AFP
Hugað að sárum eftir sprenginguna. Um 50 manns slösuðust og …
Hugað að sárum eftir sprenginguna. Um 50 manns slösuðust og 10 létust. AFP
Lögregla gætir inngangsins að Sennaya neðanjarðarlestarstöðinni eftir sprenginguna.
Lögregla gætir inngangsins að Sennaya neðanjarðarlestarstöðinni eftir sprenginguna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert