Danir vilja veiða áfram við Bretland

AFP

Dönsk stjórnvöld ætla að gera kröfu um að tryggt verði í fyrirhuguðum samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins úr úrsögn Breta úr sambandinu að danskir sjómenn geti áfram veitt í breskri efnahagslögsögu eins og áður.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Guardian. Þar segir að dönsk stjórnvöld hafi farið í gömul skjalasöfn til þess að finna sannanir fyrir því að Danir hafi stundað fiskveiðar við Bretland öldum saman. Markmiðið er að vísa til sögulegrar veiðireynslu í þessum efnum. Bresk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að endurheimta meðal annars yfirstjórn sína á eigin sjávarútvegsmálum sem til þessa hefur verið í höndum Evrópusambandsins.

Danskir embættismenn segja að 40% afla þarlendra sjómanna sé veiddur í breskri efnahgaslögsögu og ef lokað yrði á aðgang þeirra að lögsögunni hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir þá og byggðalög sem byggi á sjávarútvegi. Mikilvægt sé því að tryggja að samningar náist um útgöngu Breta og að þar verði hagsmunir danskra sjómanna tryggðir.

Reiknað er með að önnur ríki innan Evrópusambandsins sem hagsmuna hafa að gæta vegna veiða í bresku efnahagslögsögunni muni setja fram sömu kröfur en áður hafði Evrópuþingið gert slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert