Mikill meirihluti hlynntur Brexit

AFP

Rúmlega tveir af hverjum þremur Bretum eru hlynntir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov framkvæmdi en fjallað er um þær á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

Fram kemur í fréttinni að samtals séu 68% þeirrar skoðunar að ríkisstjórn Bretlands eigi að halda sig við þau áform sín að yfirgefa Evrópusambandið. Þar af eru 45% sem segjast hafa kosið með útgöngunni í þjóðaratkvæði sem fram fór í landinu á síðasta ári og eru enn hlynnt henni og 23% sem segjast hafa kosið með áframhaldandi veru í sambandinu en telja að stjórnvöldum beri skylda til þess að framkvæma vilja meirihluta kjósenda.

Frétt mbl.is: Bretar vilja hætta í Eurovision

Meirihlutinn, eða 52%, kaus með því að ganga úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðinu en 48% voru því andsnúin. Tæpur fjórðungur eða 22% segjast hafa greitt atkvæði gegn útgöngu úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni og vera þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að hunsa niðurstöðu hennar.

Framkvæmdastjóri alþjóðaverkefna YouGov, Marcus Roberts, segir í samtali við fréttavefinn að þetta þýði að breski Íhaldsflokkurinn sé að fiska í mjög stóru stöðuvatni á meðan hinir flokkarnir væru að dorga í tjörn. Vísar hann þar til þess að íhaldsmenn hafa haft forystu um það frá þjóðaratkvæðinu að ganga úr Evrópusambandinu undir forystu Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins.

Verkamannaflokkurinn hefur á sama tíma ekki tekið afgerandi afstöðu með eða á móti útgöngunni og deilur staðið yfir innan flokksins á meðan Frjálslyndir demókratar eru andvígir því að ganga úr Evrópusambandinu.

Skoðanakannanir hafa bent til þess að Íhaldsflokkurinn eigi eftir að vinna stórsigur í þingkosningunum 8. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert