Amber Rudd, innanríkisráðherra Bretlands, fullyrðir að bresk stjórnvöld vilji viðhalda „innilegu og sérstöku samstarfi“ við Evrópusambandið að lokinni brottgöngu landsins þaðan.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði í gær að Evrópa þyrfti nú að berjast fyrir eigin framtíð. Álfan gæti ekki lengur reitt sig fullkomlega á Bandaríkin og Bretland sem bandamenn, í kjölfar kjörs Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta og útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Rudd svarar þessum ummælum í útvarpsviðtali í dag og segir Breta vilja halda áfram náinni samvinnu við ESB, samkvæmt umfjöllun BBC.
„Á sama tíma og við hefjum viðræður um útgöngu úr ESB, þá munum við geta fullvissað Þýskaland og önnur Evrópulönd um að við munum vera sterkur bandamaður þeirra í varnar- og öryggismálum og vonandi í viðskiptum,“ sagði Rudd.
„Viðræðurnar verða einar þær mikilvægustu sem landið hefur tekið þátt í í marga áratugi. Það skiptir öllu máli að við gerum þetta rétt og við vanmetum ekki hversu erfitt það verður.“