Setur sjálfstæðismálin í salt

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands.
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands. AFP

Fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Nicola Sturgeon, tjáði skoska þinginu í gær að áform hennar um að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði landsins yrðu sett til hliðar í kjölfar þingkosninganna í Bretlandi fyrr í þessum mánuði.

Haft er eftir Sturgeon í frétt breska dagblaðsins Guardian að ljóst sé af niðurstöðum þingkosninganna að áformin nytu ekki almenns stuðnings á meðal Skota en Skoski þjóðarflokkurinn tapaði umtalsverðu fylgi í kosningunum og 21 þingmann, á meðan flokkar sem eru andvígir öðru þjóðaratkvæði, Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn, bættu við sig fylgi.

Skotar kusu síðast um sjálfstæði Skotlands í þjóðaratkvæði 2014 en þá var sjálfstæði frá breska konugdæminu hafnað. Sturgeon kallaði eftir því fyrr á þessu ári að nýtt þjóðaratkvæði færi fram annað hvort haustið 2018 eða vorið 2019. Forsendur hefðu að hennar sögn breyst eftir ákvörðun breskra kjósenda að ganga úr Evrópusambandinu.

Breska ríkisstjórnin lagðist gegn áformum Sturgeons. Ekki væri skynsamlegt að halda slíka kosningu fyrr en eftir að Bretar væru farnir úr Evrópusambandinu og skoskir kjósendur vissu hvernig lífið utan sambandsins yrði og hvaða valkostum þeir stæðu frammi fyrir.

Sturgeon sagði í gær að ekki yrði kallað eftir nýju þjóðaratkvæði fyrr en eftir að Bretar væru farnir úr Evrópusambandinu. Helst vildi hún sjá slíka kosningu fara fram fyrir 2021 þegar kosið verður næst til skoska þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert