Samgönguæðar Houston á bólakafi

Fyrir- og eftirmyndir frá mislægum gatnamótum í Houston.
Fyrir- og eftirmyndir frá mislægum gatnamótum í Houston. Ljósmynd/Samsett mynd

Vegir Houston í Texas-ríki Bandaríkjanna eru orðnir að fljótum. Eini nothæfi fararskjótinn eru bátar en veðurspár gera ráð fyrir meiri rigningu á einni viku í borginni en á heilu ári í venjulegu árferði.

Rekja má þrjú dauðsföll til óveðursins að því er fram kemur í frétt AFP, en búist er við að sú tala komi til með að hækka. Öllum flugum til og frá tveimur flugvöllum borgarinnar hefur verið aflýst og rýma þurfti tvö sjúkrahús borgarinnar. Þá sló sjónvarpsstöð í Houston út.

Flætt hefur yfir allar hraðbrautir við borgina, meginsamgönguæðar hennar sem hefur torveldað allt björgunarstarf. „Það er klikkað að sjá vegina sem þú keyrir á hverjum degi á bólakafi,“ hefur AFP eftir John Travis, íbúa í Houston.

Yfir tvö þúsund manns hefur verið bjargað vegna flóðanna en samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni 911 bárust 56 þúsund símtöl á 15 klukkustundum. 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert