Yfir tvö þúsund manns hefur verið bjargað í Houston og nágrenni og ekkert lát virðist vera á hamförunum í Texas þrátt fyrir að Harvey sé ekki lengur skilgreindur sem fellibylur heldur stormur.
Aldrei hafa slíkar hamfarir riðið yfir ríkið en yfir 75 sm rigning hefur fallið á Houston um helgina. Helstu vegir hafa breyst í fljót og eini fararskjótinn sem nothæfur er eru bátar. Áfram er spáð rigningu og gera veðurspár ráð fyrir því að á einni viku falli meira regn í borginni heldur en á heilu ári í venjulegu árferði.
Sjúkrahús hafa verið rýmd og þúsundir borgarbúa eru án rafmagns. Flestir skólar verða lokaðir í dag og eins tveir helstu flugvellir borgarinnar þar sem flugbrautirnar eru umluktar vatni.
Vegna flóðanna eru þyrlur notaðar til þess að bjarga fólki af húsþökum í borginni og er ekki vitað nákvæmlega hversu margir hafa dáið í hamförunum annað en að þeir eru nokkrir. Líklegt þykir að einhverjir eigi eftir að finnast látnir í bifreiðum sínum sem hafa farið á kaf í vatnselgnum.
Ótrúlegar myndir hafa birst á netinu frá Houston, svo sem maður sem reyndi að veiða fisk þar sem hann veður flóðið í stofunni heima hjá sér. Ein kona birti mynd á netinu af tveimur krókódílum í garðinum hennar og síðan hafa fjölmargar myndir verið birtar af fólki á sjóskíðum í miðborginni.