Bandaríska veðurstofan segir að nýtt úrkomumet hafi fallið í dag á meginlandi Bandaríkjanna í kjölfar fellibylsins Harvey, sem skall á Texas fyrir fjórum sólarhringum.
Úrkomumælir í úthverfi austan við Houston sýndi að 1.298 millímetrar höfðu fallið í dag, en fyrra metið voru 1.219 millímetrar sem féllu árið 1978 í fellibylnum Ameliu.
„Þetta er mesta óveður sem skollið hefur á frá upphafi mælinga í Bandaríkjunum, fyrir utan á Havaí,“ segir John Nielsen-Gammon, veðurfræðingur í Texas. „Og það rignir enn.“
Fregnir herma að ellefu dauðsföll hafi verið staðfest vegna fellibylsins Harvey, sem hefur ekki sungið sitt síðasta. Gífurlegt eignatjón hefur orðið í ríkinu vegna gífurlegra flóða sem orsakast af úrkomunni.
Donald Trump Bandaríkjaforseti og Melania Trump forsetafrú heimsóttu í dag hamfarasvæðin í Texas.
„Bandaríkin eru ein fjölskylda,“ sagði Trump í gær, í tilefni þessara atburða. AFP segir að honum sé mikið í mun að koma fram sem sameiningartákn í þessum fyrstu náttúruhamförum sem orðið hafa í Bandaríkjunum síðan hann tók við embætti.
Hann hefur lofað því að stjórnvöld muni hjálpa Texasbúum að glíma við eftirköst Harvey, enda sé mikil vinna fram undan.
Harvey hefur ekki sagt sitt síðasta. Þó að miðja stormsins sé nú rétt úti fyrir ströndum Texas-ríkis hefur neyðarástandi verið lýst yfir í nágrannaríkinu Louisiana. Þar er búist við gífurlegri ofankomu.
Þúsundir borgara hafa verið fluttir í skjól vegna veðursins.