„Það tók mig 50 klukkutíma að keyra frá Miami til Tennessee. Lengsta tímann tók að fara í gegnum Flórída. Það voru um 10 milljónir manna á vegunum að flýja undan Irmu. Ég hef aldrei upplifað annað eins. Þetta var rosalega mikið stress og fólk var örvæntingarfullt,“ segir Jón Eggert Guðmundsson sem er búsettur í suðurhluta Miami í Flórída.
Hann er nú kominn í öruggt skjól á hóteli í Tennessee í um 2.000 km fjarlægð frá Miami þar sem hann ætlar að bíða af sér fellibylinn. Það tók hann talsverðan tíma að finna hótel því þau eru öll upp bókuð í næsta nágrenni.
Þetta er líklega einsdæmi í sögunni að margar milljónir manna þurfa að yfirgefa heimili sín á sama tíma og flýja til annarra ríkja vegna fellibyljar. Jón Eggert segir að bílferðin hafi vægast sagt tekið á taugarnar. Miklar umferðarteppur, bílslys og langar biðraðir á bensínstöðvar hafi sett strik í reikninginn. Biðraðir eftir bensíni voru 2 - 3 kílómetrar og biðin því 5 klukkustunda löng.
Stjórnvöld í Flórída lögðu sig fram um að greiða leið íbúa af svæðinu meðal annars með því að opna neyðarbrautir og vegaxlir, að sögn Jóns Eggerts. Spurn eftir bensíni og olíu jókst og því voru risastór olíuskip í höfn til þess að fylla á bensínstöðvar og olíuflutningabílar höfðu ekki undan að fylla á.
„Margir voru ekki í andlegu ástandi til að keyra, sumir voru á lélegum bílum sem ýmist biluðu eða urðu bensínlausir og árekstrar voru tíðir,“ segir Jón Eggert. Þegar árekstur varð gat lögreglan fátt annað gert en að ýta bílunum í burtu af vegunum til að halda umferðinni opinni og hlúa að fólki. Bið eftir sjúkrabíl gat tekið marga klukkutíma. Mögulega tók ekkert betra við á sjúkrahúsinu og óvíst hvort það væri í stakk búið að standa af sér fellibylinn. „Þá væri maður ekki betur staddur þar,“ segir Jón Eggert. Hann hafi sjálfur óttast að lenda í árekstri á þessari leið en sem betur fer slapp hann.
Hann tekur fram að hann hafi verið heppinn því hann hafi ekki lent nema í einni 4 klukkustunda umferðateppu. Hann segir marga hafa verið örvinglaða á leiðinni og grátið undir stýri. „Ég hefði alveg viljað sleppa þessari lífsreynslu,“ segir hann.
Á þessum flótta undan fellibylnum er ekki hlaupið að því að komast á klósett og aðstæður eflaust erfiðari hjá fjölskyldum með börn. Jón Eggert stundar keppnishjólreiðar og kom sú reynsla sér að góðum notum. „Ég eyk söltin í líkamanum með því að salta allan mat og tek inn sölt sem þýðir að saltbúskapurinn er meiri en vanalega og þá hélt líkaminn vatninu inni í sér. Ég þurfti að pissa tvisvar á þessum 50 klukkutímum. Þessi hjólreiða vitleysa kom sér vel,” segir Jón Eggert og hlær. Hann segir fólk hafi þurft að beita ýmsum brögðum og margir hafi hreinlega verið með bleiu á sér í bílferðinni.
Jón Eggert býr á jarðhæð í þriggja hæða fjölbýlishúsi og hann segir það ekki hafa komið til greina að vera eftir. „Það hefði verið lífshættulegt að verða eftir,“ segir hann. Hins vegar þekkir hann nokkra sem dvelja á heimilum sínum. „Ástæðurnar eru oftast þær að þau hafa lent áður í fellibyl og telja að hann muni sveigja fram hjá Miami eins og hann hafi alltaf gert,“ segir Jón Eggert. Hann bendir á að þetta fólk virðist ekki taka með í reikninginn að þetta er sá stærsti í sögunni og þó hann fari 20 til 30 mílur til hægri eða vinstri lendir Miami illa í því hvernig sem á það er litið.
Jón Eggert var nývaknaður þegar mbl.is sló á þráðinn til hans áðan. Hann náði góðum svefni í nótt en hefur lítið sofið frá því á miðvikudaginn. „Ég reyni að hvíla mig núna eftir þetta stress í öruggu skjóli,“ segir hann léttur í bragði.