„Við getum gert svo miklu betur en það“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu sína í dag í …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, flytur ræðu sína í dag í Flórens á Ítalíu. AFP

„Bretland mun yfirgefa Evrópusambandið. Við munum ekki lengur verða aðilar að innri markaði þess né tollabandalagi þess. Vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að fjórfrelsi innri markaðarins er óaðskiljanlegt að mati vina okkar í sambandinu. Við vitum að innri markaðurinn er byggður á jafnvægi á milli réttinda og skyldna og að ekki er hægt að njóta allra kosta aðildar að innri markaðinum þess að gangast undir skyldurnar.“

Þetta sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu sem hún flutti í borginni Flórens á Ítalíu þar sem hún greindi frá stefnu ríkisstjórnar sinnar varðandi fyrirhugaða útgöngu landsins úr Evrópusambandinu. Fyrir vikið sagði hún að verkefnið framundan væri að hanna nýtt fyrirkomulag sem gerði náið samstarf á sviði viðskiptamála mögulegt en setti umrædd réttindi og skyldur í nýtt og annað jafnvægi. Hins vegar hæfist sú vinna ekki á auðu blaði enda væri þegar samræmd löggjöf að miklu leyti í Bretlandi og sambandinu.

Bretland verður ekki aðili að EES

May sagði að ein leið sem hægt væri að fara í þessum efnum væri að fara leiðir sem önnur ríki hefðu þegar farið. Þar kæmu tvö fyrirkomulag helst til greina. Annað hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eða hefðbundinn fríverslunarsamningur líkt og Evrópusambandið hefði gert við Kanada. Hún teldi hins vegar að hvorugur þessara kosta væri til þess fallinn tryggði hagsmuni Bretlands og Evrópusambandsins.

Þannig þýddi EES að Bretland yrði að taka upp reglur frá Evrópusambandinu, bæði sem þegar hefðu verið samþykktar og yrði samþykktar í framtíðinni, sem Bretar myndu hafa lítil áhrif á og gætu ekki greitt atkvæði um. Bretar gætu ekki sætt sig við að afsala sér með þeim hætti lýðræðislegu valdi til sambandsins. Sagðist May óttast ennfremur að slíkt fyrirkomulag myndi óhjákvæmilega leiða til deilna og endurskoða yrði á ný tengsl Bretlands við Evrópusambandsins í fyrirsjáanlegri framtíð með tilheyrandi skaða í för með sér.

Telur gilda ástæðu til bjartsýni

Hvað fríverslunarsamning í anda samningsins við Kanada varðaði, sem væri að sögn forsætisráðherrans nútímalegasti fríverslunarsamningur sem Evrópusambandið hefði gert, sagði hún að slíkt fyrirkomulag myndi engu að síður þýða lakari aðgang Bretlands og sambandsins að mörkuðum hvors annars. Þá yrði með því gengið út frá því að ekkert samræmt regluverk væri fyrir hendi og tæki líklega langan tíma að semja um það.

„Vitum gert svo miklu betur en það,“ sagði May. Rifjaði hún upp ræðu sem hún flutti í Lancaster House í London í upphafi ársins þar sem hún lagði áherslu á að ekki yrði tekið upp fyrirkomulag sem þegar hefði verið samið um við önnur ríki. „Verum í staðinn skapandi og um leið raunsæ þegar við semjum um metnaðarfullt samstarf á sviði viðskiptamála sem tekur tillit til grundvallarreglna Evrópusambandsins sem og vilja bresku þjóðarinnar. Ég tel að það séu gildar ástæður fyrir því að sýna slíka bjartsýni og metnað.“

May tilkynnti ennfremur að Bretar vildu standa við þær fjárhagsskuldbindingar sem þeir hefðu tekið sé á herðar áður en ákvörðun var tekin um að ganga úr sambandinu og sagði ríkisstjórn sína stefna að því að semja um tveggja ára aðlögunartíma í kjölfar formlegrar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu 29. mars 2019 þar sem viðhaldið yrði hliðstæðu fyrirkomulagi við það sem til staðar er í dag. Tryggt yrði hins vegar að slíkt aðlögunartímabil yrði ekki lengra en tvö ár. Fyrirtæki og almenningur vissi þá að hverju hann gengi.

Ræða Theresu May í heild (á ensku)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert