„Eins og köld vatnsgusa“

Sigurjón Guðjónsson býr í New York.
Sigurjón Guðjónsson býr í New York. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er eins og köld vatnsgusa því þegar ég hef hjólað þarna í gegn hef ég pælt í því hversu auðvelt það er að keyra á þessari hjólabraut sérstaklega eftir hryðjuverkin í Evrópu undanfarið,“ segir Sigurjón Guðjónsson um árásina í New York þar sem átta manns létu lífið og fjölmargir særðust í dag. 

Þegar vel viðrar hjólar Sigurjón gjarnan þessa leið til og frá vinnu en hann býr vestan megin í Harlem og vinnur syðst á Manhattan. Hann vinnur einnig fyrir samgönguráðuneyti New York-borgar og er borgarskipulag hugleikið. 

Í dag var sólríkur dagur sem margir nýttu til útivistar á þessu svæði en síðustu daga hefur rignt talsvert. Margir sækja á þetta svæði til að komast í meiri náttúru og losna undan yfirþyrmandi byggingum borgarinnar, að sögn Sigurjóns. 

„Nei,“ svarar hann stutt og laggott spurður hvort þessi árás eigi eftir að hafa áhrif á ferðir hans í borginni. Hann bendir á að líkurnar á því að hann sjálfur hefði lent í þessari árás væru hverfandi. Þrátt fyrir þennan hrikalega atburð eru New York-búar slegnir yfir þessu en þeir munu halda ótrauðir áfram sínu striki.   

Borgin hefur unnið að því að setja upp stáltálma á nokkrum stöðum til að koma í veg fyrir að hægt væri að aka inn mannfjölda hins vegar hefur það ekki verið gert þarna. 

Aðstæður á hjólabrautinni eru með þeim hætti að ekki er einfalt fyrir þá sem eru hjólandi að forða sér í burtu í snarhasti nema stöðva og fara af hjólinu. Brautirnar eru afmarkaðar með kanti. Hins vegar er auðvelt fyrir bíl að aka brautina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka