Þurfa að taka myndir áður en lýst er yfir goslokum

Mynd sem tekin var af eldgosinu fyrir fáeinum dögum.
Mynd sem tekin var af eldgosinu fyrir fáeinum dögum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dregið hefur verulega úr virkni eldgossins við Sundhnúkagíga og er engin virkni nú sjáanleg í vefmyndavélum. Enn er þó ótímabært að lýsa yfir goslokum að mati Veðurstofunnar.

Þarf m.a. að taka myndir af gígnum úr lofti áður en það verður hægt.

„Það hefur dregið verulega úr því en ég vil kannski ekki alveg segja að því sé lokið strax,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Gaslosun og gosórói minnkað

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti færslu fyrr í kvöld á Facebook þar sem því er velt upp hvort gosinu sé í raun lokið. Er þar vísað til þess að gosórói hafi stöðugt fallið frá því í morgun og að gaslosun úr gígnum hafi minnkað verulega.

„Við höfum alltaf gefið okkur sólarhring til að lýsa yfir goslokum,“ segir Sigríður og bætir við að nauðsynlegt sé að fá myndir af gígnum þar sem sjáist hvort hraunið sé storknað.

Það sé m.a. gert með því að láta dróna fljúga yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert