Samkomulag um útgöngu Breta

Theresa May og Jean-Claude Juncker eru sest á fund að …
Theresa May og Jean-Claude Juncker eru sest á fund að nýju en þessi mynd var tekin á mánudag. AFP

Forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, er mætt á fund forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, í Brussel þar sem lokahönd er lögð á samkomulag milli Breta og ESB um útgöngu landsins úr sambandinu, Brexit.

Uppfært klukkan 6:58 - Allt bendir til þess að samkomulag sé í höfn og næst taki við fundahöld um viðskipti Breta við ESB. Þetta hafa fréttastofur eins og AFP og BBC eftir Juncker. 

Samninganefndir voru að í alla nótt við að ganga frá samkomulaginu en lokafrestur Breta til þess að skila inn skilmálum sem þeir setja rennur út á sunnudag. Ráðstefna verður síðan haldin 14.-15. desember þar sem rætt verður um viðskiptasamninga á milli Breta og ESB.

Martin Selmayr, ráðuneytisstjóri Junckers (chief of staff), birti snemma í morgun mynd á Twitter af hvítum reyk en hann er yfirleitt tákn Páfagarðs um val á nýjum páfa. 

May var mætt í höfuðstöðvar framkvæmdastjórnarinnar skömmu fyrir sex í morgun að íslenskum tíma og tók Juncker á móti henni. Þau svöruðu ekki spurningum fréttamanna en stilltu sér upp fyrir myndatöku áður en þau héldu inn í bygginguna.

May og og Jean-Claude Juncker tókst ekki að komast að samkomulagi á mánudag eftir að hafa rætt þrjú helstu ágreiningsmálin: landamæri Írlands og Norður-Írlands, svonefndar „skilnaðargreiðslur“ Breta vegna útgöngunnar og réttindi ríkisborgara ESB-ríkja sem búa í Bretlandi. Embættismenn ESB hafa sagt að ekki verði hægt að hefja samningaviðræðurnar um Brexit á leiðtogafundi ESB 15. desember nema samkomulag náist í þessum þremur málum.

Hermt er að May og leiðtogar ESB hafi orðið ásátt um að Bretar greiði 45 til 55 milljarða evra fyrir útgönguna úr ESB, þrátt fyrir andstöðu margra Brexitsinna í Bretlandi við slíkar greiðslur. 

Breskir og írskir fjölmiðlar sögðu á mánudag að Theresa May hefði samþykkt málamiðlun sem fælist í því að Norður-Írland lyti í raun reglum tollabandalags og innri markaðar ESB. Hún er hins vegar sögð hafa þurft að fresta því að staðfesta slíkt samkomulag vegna andstöðu leiðtoga DUP, flokks sambandssinna á Norður-Írlandi sem hefur varið minnihlutastjórn breskra íhaldsmanna vantrausti.

May gerði hlé á fundinum með Juncker í vikunni til að hringja í leiðtoga DUP, Arlene Foster, sem sagði seinna í yfirlýsingu að ekki kæmi til greina að samþykkja lausn sem fæli í sér að Norður-Írland lyti öðrum reglum en önnur svæði Bretlands. Leiðtogar heimastjórna Skotlands og Wales og borgarstjóri London sögðu að ef Norður-Írlandi ætti að lúta reglum tollabandalagsins myndu þeir krefjast þess að það sama gilti um Skotland, Wales og höfuðborgina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert