„Aðild að EES er dauð eftir þetta“

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP

Möguleikinn á að Bretland verði aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eftir að landið yfirgefur Evrópusambandið er endanlega úr sögunni að mati Johns Mann, þingmanns breska Verkamannaflokksins, eftir að hann sat þingflokksfund flokksins í gær.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Independent að fram hafi komið í máli Jeremys Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, á fundinum að EES-samningurinn hentaði ekki hagsmunum Bretlands eftir að út úr Evrópusambandinu væri komið.

Lávarðadeild breska þingsins gerði í síðustu viku meðal annars þær breytingar á frumvarpi ríkisstjórnar Bretlands undir foystu Theresu May forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins um það hvernig yrði staðið að útgöngu landsins úr Evrópusambandinu að aðild að EES utan sambandsins skyldi koma til álita í kjölfar hennar.

Frumvarpið kemur í kjölfarið aftur til kasta neðri deildar þingsins sem áður hafði samþykkt það án slíkra breytinga. Málið verður tekið fyrir síðar á þessu ári en stuðningur þingmanna Verkamannaflokksins getur skipt miklu máli varðandi afgreiðslu þess.

Beðinn um að halda möguleikum opnum

Haft er eftir Mann að mikil andstaða hafi komið fram á þingflokksfundinum. Margir þingmenn hafi staðið upp og sagt að aðild að EES-samningnum kæmi ekki til greina. Það færi gegn ákvörðun breskra kjósenda 2016 að segja skilið við sambandið.

„Þetta hefur ekki gerst áður innan þingflokksins,“ segir Mann og ennfremur. „Aðild að EES er dauð eftir þetta.“ Mann sagði fundinn styrkja afstöðu Corbyns til EES-samningsins. „En það gengur að dauðu því sem kom frá lávarðadeildinni - það mun ljóslega ekki njóta stuðnings Verkamannaflokksins.“

Hins vegar segir í fréttinni að annar þingmaður Verkamannaflokksins hafi sagt að Corbyn hafi verið beðinn um það á fundinum að halda öllum möguleikum opnum þegar málið kæmi til kasta neðri deildarinnar. Hann hafi ekki útilokað að gera það.

Verði breytingartillögu lávarðadeildarinnar hafnað af neðri deildinni þegar málið kemur til kasta hennar síðar á árinu, sem líklega verður í haust, getur lávarðadeildin ekki gert sambærilega breytingu á frumvarpinu á nýjan leik. 

Hentar ekki hagsmunum Bretlands

Spurður um stöðuna segir talsmaður Corbyns að bæði Corbyn og Keir Starmer, skuggaráðherra Verkamannaflokksins í útgöngumálum, hafi sagt að EES-samningurinn eins og hann væri í dag kæmi ekki til móts við hagsmuni og þarfir Bretlands. Fyrir vikið hentaði samningurinn ekki og væri ekki í samræmi við það með hvaða hætti flokkurinn vildi sjá staðið að útgöngu landsins úr Evrópusambandinu.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að Paul Blomfield, undirráðherra útgöngumála í skuggaráðuneyti Starmers, að Verkamannaflokkurinn hafi ekki útilokað neitt í þessum efnum sem þykir lýsa óvissu um stefnu flokksins.

Þá segir í frétt Independent að þingflokksfundur Verkamannaflokksins hafi farið fram eftir að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefði sagt í samtali við breska viðskiptablaðið Financial Times að Norðmenn legðust ekki gegnt mögulegri aðild Breta að EES-samningnum eftir að þeir hefðu yfirgefið Evrópusambandið.

Hins vegar bætti Solberg við að EES-samningurinn hefði kosti og galla. Bretar yrðu þá að samþykkja ýmislegt sem hefði verið erfitt að ræða í kjölfar þjóðaratkvæðisins um veru Bretlands í Evrópusambandsins. Þar á meðal frjálsa för fólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert