Breskir þingmenn hafna EES

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í gær.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í breska þinginu í gær. AFP

Meiri­hluti þing­manna í neðri deild breska þings­ins hafnaði því í at­kvæðagreiðslu í gær að Bret­land skyldu sækj­ast eft­ir því að vera áfram aðili að Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) eft­ir að landið hef­ur yf­ir­gefið Evr­ópu­sam­bandið.

Meiri­hluti lá­v­arðadeild­ar þings­ins hafði áður gert breyt­ingu á frum­varpi um út­göng­una þess efn­is að Bret­land yrði aðili að EES-samn­ingn­um eft­ir að hún hefði átt sér stað sem gert er ráð fyr­ir að verði í lok mars á næsta ári. Neðri deild þings­ins hafnaði því hins veg­ar með 327 at­kvæðum gegn 126 sam­kvæmt frétt breska rík­is­út­varps­ins BBC.

For­ysta breska Verka­manna­flokks­ins hafði fyr­ir­skipað þing­mönn­um sín­um að sitja hjá við at­kvæðagreiðsluna en fjöl­marg­ir þeirra hlýddu því ekki. 75 þing­menn flokks­ins greiddu at­kvæði með EES og 15 á móti. Sögðu nokkr­ir þeirra sig frá for­ystu­störf­um inn­an flokks­ins til þess að geta annað hvort greitt at­kvæði gegn mál­inu eða með því. 

Bresk stjórn­völd hafa ít­rekað lýst sig and­snú­in því að Bret­land verði aðili að EES-samn­ingn­um utan Evr­ópu­sam­bands­ins líkt og Nor­eg­ur, Ísland og Liechten­stein. Stuðnings­menn slíkr­ar aðild­ar segja að þannig gætu Bret­ar tengst sam­band­inu eins náið og mögu­legt væri án þess að vera inn­an þess.

And­stæðing­ar aðild­ar að EES segja að þar með yrðu Bret­land að taka upp lög og regl­ur frá Evr­ópu­sam­band­inu án þess að hafa neitt um þær að segja auk þess sem það yrði ekki í sam­ræmi við niður­stöður þjóðar­at­kvæðis­ins í land­inu 2016 þar sem meiri­hluti breskra kjós­enda samþykkti að segja skilið við sam­bandið.

Lá­v­arðadeild­in gerði sam­tals 20 breyt­ing­ar á frum­varp­inu, sem sagðar voru af stuðnings­mönn­um út­göng­unn­ar all­ar hugsaðar til þess að setja stein í götu henn­ar, en þeim var öll­um hafnað af neðri deild þings­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert