Dominic Raab, áður húsnæðisráðherra Breta, hefur verið skipaður ráðherra útgöngu úr Evrópusambandinu. Hann tekur við af David Davis sem sagði af sér í gær vegna óánægju með nýja áætlun Theresu May forsætisráðherra um hvernig útgöngunni skal háttað.
Raab er 44 ára lögfræðingur og hefur setið á þingi fyrir Íhaldsflokkinn frá árinu 2010. Eftir þingkosningarnar í fyrra tók hann við stöðu dómsmálaráðherra en um áramót var hann færður yfir í ráðuneyti húsnæðismála í uppstokkun Theresu May á ráðherraembættunum. Hann tekur nú við sínu þriðja ráðherrastarfi á rúmu ári.
Raab er stuðningsmaður útgöngunnar og var einn 138 þingmanna Íhaldsflokksins sem greiddi atkvæði með henni í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. 185 íhaldsmenn voru henni mótfallnir.
Í umræðum í þinginu í árslok 2016 sagði Raab bresku þjóðina hafa gefið „skýrt umboð til ríkisstjórnarinnar um að yfirgefa Evrópusambandið og taka aftur stjórn á landamærum, peningum, lögum og viðskipum.“
Ljóst er að með því að taka við starfinu beygir hann sig undir nýútgefna útgöngulínu ríkisstjórnar Theresu May en forsætisráðherrann hefur gefið út að þeir ráðherrar sem ekki fylgi línunni verði reknir.
Miklar deilur hafa verið innan Íhaldsflokksins, og raunar Verkamannaflokksins líka, um hvernig samband Bretlands og Evrópusambandsins skal vera eftir útgönguna. Eftir maraþonfund á föstudaginn komst ríkisstjórnin loks að sameiginlegri niðurstöðu.
May sagði eftir fundinn að ríkisstjórnin muni leitast eftir því að gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið á sviði iðnaðar- og landbúnaðarframleiðslu og styddi auk þess sameiginlegt tollasvæði. Hið síðarnefnda verður þó að teljast langsótt í ljósi þess að Bretar munu einnig leitast eftir því að geta samið um eigin tolla við utanaðkomandi ríki.