Boris Johnson, fráfarandi utanríkisráðherra Bretlands, sagði eftir að hann tilkynnti afsögn sína úr ráðherrastól fyrr í dag að „draumurinn um Brexit væri að deyja“.
Johnson fylgir David Davis, ráðherra útgöngu úr Evrópusambandinu, en Davis sagði af sér í gær. Óánægja er meðal harðlínumanna í útgöngumálum um nýja áætlun stjórnar Theresu May um hvernig samskiptum Evrópusambandsins og Breta skuli háttað eftir útgönguna.
Greint var frá því á föstudag að breska stjórnin hefði náð samkomulagi um hvernig hún sæi fyrir sér framtíðarsamband sitt við Evrópusambandið eftir Brexit. Johnson segist hafa hugsað málið um helgina og hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann rói ekki í sömu átt og samkomulagið segir til um.
Breskir fjölmiðlar telja líklegt að lögð verði fram vantrauststillaga á May á morgun. Talsmaður forsætisráðherrans sagði að hún myndi berjast gegn slíkri tillögu.