Skoðar fríverslunarsamning við ESB

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ríkisstjórn Bretlands hefur falið alþjóðlegu lögmannsstofunni Linklaters það verkefni að semja drög að fríverslunarsamningi við Evrópusambandið byggt á fríverslunarsamningum sem sambandið hefur þegar gert við Kanada, Suður-Kóreu og Sviss.

Þetta kemur fram á breska fréttavefnum iNews. Þar segir að Linklaters sé ætlað að draga saman þá hluta fyrri fríverslunarsamninga sem ESB hefur gert sem henti breskum hagsmunum vegna mögulegs samnings á milli Bretlands og sambandsins.

Bent er á að breskir þingmenn sem hlynntir séu útgöngu úr ESB hafi bent á fríverslunarsamninga sambandsins við ríki eins og Kanada og nú síðast Japan sem fordæmi að því með hvaða hætti Bretar gætu samið við það í kjölfar útgöngu þeirra.

Hins vegar er bent á að slíkir samningar myndu leiða til hefðbundinnar landamæragæslu á landamærum Norður-Írlands, sem tilheyrir Bretlandi, og Írlands (sem er í ESB) sem bresk stjórnvöld hafi sagt að ekki væri ásættanlegt.

Ennfremur að takist ekki að semja um viðskipti við ESB þýði það að viðskiptasamband Bretlands við sambandið verði byggt á reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Tillaga Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um samningsafstöðu í viðræðum við ESB sem kynnt var á dögunum hefur fallið í grýttan farveg. Fyrir vikið eru líkurnar á því að Bretar yfirgefi sambandið án sérstaks samnings taldar hafa aukist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert