Hyggst bjóða Bretum einstakan samning

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu.
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu. AFP

Evrópusambandið er reiðubúið að bjóða Bretlandi viðskiptasamning sem engu öðru ríki hefur staðið til boða. Þetta sagði Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, í viðræðunum um útgöngu Breta úr sambandinu, við blaðamenn í Berlín, höfuðborg Þýskalands.

Fjallað er um ummæli Barniers meðal annars á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þar segir enn fremur að ESB hafi til þessa ekki verið reiðubúið að bjóða Bretlandi upp á sérsniðinn viðskiptasamning heldur sagt að Bretum stæði aðeins til boða samningur á hliðstæðum nótum og EES-samningurinn eða hefðbundinn víðtækur fríverslunarsamningur.

Barnier hafi þannig sagt að hann myndi bjóða Bretum einstakan viðskiptasamning sem fæli í sér nánara samstarf við ESB en áður hafi verið í boði fyrir ríki utan sambandsins. Hann lagði engu að síður sem fyrr áherslu á að ekki væri í boði að velja það besta sem væri í boði með þátttöku í innri markaði ESB en sleppa hinu. Þar yrði að taka fullan þátt eða alls ekki.

Vaxandi líkur hafa þótt á því að ekki takist að semja um útgöngu Bretlands úr ESB og fyrir vikið muni Bretar yfirgefa sambandið í lok mars á næsta ári án þess að tekist hafi að landa sérstökum samningi um hana. Hefur það ekki síst vakið áhyggjur innan ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert