Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir Evrópusambandið verða að sýna Bretum meiri „virðingu“ í samningaviðræðum um útgöngu Bretlands úr ESB. Í yfirlýsingu sem May sendi frá sér í dag sagði hún „ekki ásættanlegt“ að leiðtogar ESB hafni svo „seint í samningaferlinu“ áætlun sinni, án þess að leggja til annan valkost.
Kvað May viðræðurnar komnar í ógöngur og að ekki verði hægt að leysa málið án „alvöru viðræðna“ af hálfu ESB.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í gær að áætlun May „muni ekki ganga“.
Að sögn BBC hefur breska pundiðlækkað gegn dollara og evru í kjölfar yfirlýsingar May í dag.
Bretland gerir ráð fyrir að ganga úr Evrópusambandinu í lok mars á næsta ári og bresk stjórnvöld og ESB vinna nú að því að komast að samkomulagi um útgönguna fyrir nóvember á þessu ári, svo hægt verði að staðfesta samkomulagið í tíma.
Báðar hliðar vilja forðast vírgirðingar, eftirlitsmyndavélar eða eftirlitsstöðvar á landamærum Norður-Írlands og Írlands, en hafa ekki enn náð saman um með hvaða hætti það verði gert.
May segir sína áætlun gera ráð fyrir að ESB og Bretland deili „sameiginlegum reglum“ varðandi vörur, en ekki þjónustu, þar sem að það sé eina leiðin til að forðast landamærastöðvar.
May reyndi að fá leiðtoga ESB til að fallast á þessa tillögu á fundi í Salzburg í Austurríki í dag. Tusk sagði hins vegar að þó að „jákvæðir þættir“ væru í tillögunni þá muni hún ekki virka, ekki hvað síst þar sem hún „grafi undan hugmyndinni um sameiginlegan markað ESB“.
„Í gegnum þetta ferli hef ég reynt að koma fram við ESB af virðingu. Bretland býst við því sama og góð samskipti í lok þessa ferlis eru nauðsynleg til þess,“ sagði May í dag. Kvað hún Tusk ekki hafa komið með neinar tillögur eða uppástungur. „Þannig að við erum í þessum ógöngum.“